23.1.06

pyntingar - pyndingar

Ég ákvað að færa umræðuna úr orðabelgnum hér að neðan upp á "hærra plan", beint inn á síðuna þar sem mér finnst þetta nokkuð áríðandi.

Ég að svara Hildigunni sem spurði hvort 24 væri ekkert að förlast:
24 er alltaf jafn spennandi en ég var byrjuð að kvarta í lok 3. seríu yfir of miklum pyndingum. Þetta versnar í 4. seríu og nú um daginn rakst maðurinn minn á grein um þetta á franska netinu, fleirum en mér er farið að blöskra. Þeir virðast vilja láta okkur finnast það eðlilegt að stundum þurfi að pynda svörin úr fólki. Það fer afskaplega mikið í taugarnar á mér.

Ég með efasemdir um sjálfa mig:
Er það pynta eða pynda?

Hildigunnur:
pynta (sem er ekkert skylt pynte í dönsku )
mér fannst alveg nóg um pyntingar í annarri seríu. Takk fyrir að vara mig við.
(ætli sé verið að lauma inn stuðningi við quantanamo og svipaða staði?)

Eyja:
Sjálf nota ég yfirleitt orðið "pynta" þegar ég pynda fólk við yfirheyrslur. Annars segir orðabókin mín að bæði orðin séu góð og gild.
Mér þætti gaman að vita hversu gagnlegar upplýsingar sem fást með pyntingum reynast. Fangar sem er verið að pynta hljóta að segja svo til hvað sem er og þar að auki oft að vera orðnir snarruglaðir. Sannsögli er þeim sennilega ekki efst í huga. Ekki það að gagnsemi upplýsinganna dugi til að réttlæta pyntingar í mínum huga en mér svona dettur í hug að pyntingarnar þjóni fyrst og fremst kvalalosta pyntingameistaranna og að "árangurinn" sé í raun aukaatriði.

Mitt svar:
Já, það er að mínu viti augljóst að framleiðandi/handritshöfundur/leikstjóri er að berja inn í haus áhorfenda að pyndingar (ég ætla að halda mér við þessa stafsetningu fyrst það má, þar sem hún kom umhugsunarlaust hjá mér í upphafi) séu nauðsynlegur hluti af stríði Bandaríkjamanna við hryðjuverkamenn.
Þetta er afar óhugnalegt sjónarmið og í fyrstu seríunum virtist mér þessi hluti frekar vera eins konar ádeila. Aðalpersónan upplifir miklar sálarhremmingar í sambandi við allt sem hann þarf að ganga í gegnum og verkin sem hann neyðist til að vinna til að bjarga forsetanum og "milljónum Bandaríkjamanna" (síendurtekið í seríunum: "Millions will die, we don't have time..."). Nú í fjórðu seríu bendir ýmislegt til annars. Það er tekið til við að pynda ótrúlegasta fólk og persónur sem reynast hafa verið pyndaðar að ósekju eru svo gerðar leiðinlegar eða frekar og látnar hverfa. Þetta er þó ekki algilt, ein persónan er orðin að einhvers konar píslarvætti og spennandi að sjá hvað þeir gera við hana í næstu þáttum.
Ég get eiginlega ekki sagt of mikið um þetta þar sem Hildigunnur á eftir að sjá seríuna og ég þoli ekki þegar fólk eyðileggur fyrir mér með því að segja mér hluti. En ég get a.m.k. lofað því að ef serían endar í fasískum lofsöng um Bandaríkin og hvernig þau fórna mannslífum í baráttunni við illu Arabana, er ég ekki alveg viss um að ég horfi á 5. seríuna líka.

Ég er gersamlega sammála Eyju um að pyndingar eru kvalalosti, þegar lögregluþjónar fara illa með fanga eru þeir iðulega að gera það af hatri, ekki til að þjóna réttvísinni á nokkurn hátt.
Ég vona bara að sem flestir geri sér grein fyrir því að pyndingar eru að verða eðlilegur hlutur fyrir æðstu ráðamenn í Bandaríkjunum og að þessa þróun verður að stöðva. Hvað er langt í að íslenskir ráðamenn feti í sömu fótsporin? Gera þeir það ekki yfirleitt?

Lifið í friði.