16.1.06

ofurviðkvæmt blóm

Ég hef aldrei talið mig ofurviðkvæma en ég er kannski farin að verða meyrari með árunum.
A.m.k. hefur þolstuðull minn gagnvart lélegu sjónvarpsefni snarlækkað sem hefur orðið til þess að ég er nokkurn veginn hætt að horfa á sjónvarp.
Að sama skapi skil ég ómögulega hörku fólks sem getur setið og lesið barnaland og málefnin. Ég hef oft reynt, alveg eins og ég margreyndi að horfa á Loft Story (franski big brother) en ég gefst alltaf upp á innan við mínútu.
Lýsingar Hörpu á skrifurunum á barnalandi eru nú samt óviðjafnanlegar, mæli sterklega með þeim (tengill í hana hér til hliðar).
Varðandi DV-málið hlakka ég ógurlega til að lesa Guðna í Mogganum frá laugardeginum síðasta. Guðni hefur lengi rýnt í DV í pistlum sínum í Lesbók og nú væri sannarlega gaman að eiga þá alla. Ég er ómöguleg í að safna úrklippum, hendi blöðunum alltaf í tiltektarkasti og gef mér þá ekki tíma til að renna yfir þau til að klippa út. En Guðni er mjög gáfaður maður og ritfær og hefur verið unun bókmenntalegri rýni hans á stefnu DV. (Nú þori ég ekki annað en að taka fram að fyrir mér er lýsingarorðið gáfaður EKKI skammaryrði.)
Eftir að hafa lesið margt misgáfulegt um þetta mál, er mín niðurstaða enn sú sama og í upphafi: Mér finnst blöð eins og DV ekki hafa tilverurétt. Mér er skítsama þó að ákveðinn hópur fólks hafi gaman af því að velta sér upp úr skít og óþverra, mig langar til að búa í heimi þar sem DV er ekki til. Alveg eins og mig langar til að peningarnir hætti að vera Guð. Ég er hugsjónamanneskja og draumórakona og barnaleg og allt það sem þið viljið kalla mig. Kannski m.a.s. hræsnari og lýðskrumari. Það verður að hafa það, ég vil trúa því að heimurinn geti orðið betri, að tíminn haldi ekki áfram að líða bara til að við getum sokkið dýpra í drulluna.

Þegar ég var í fríinu á "Spáni" í haust voru öll blöðin í búðinni sem við skruppum stundum í, bresk. Eftir að hafa rennt yfir fyrirsagnirnar tvisvar óforvarendis gerði ég mér grein fyrir því að þær voru of mikið fyrir mig og hætti því að líta á þennan vegg. Blóð, morð, níðingar, lýtalækningar... þarna voru óteljandi blöð sem höfðu öll þessa sömu stefnu og DV, að draga upp skít og klína honum út á forsíðu vegna þess að "þetta er það sem fólkið vill" eða jafnvel "þetta er það sem fólkið ÞARF " eins og sumir DV manna hafa reynt að sannfæra landann um.
Þess vegna varð maðurinn minn að hnippa í mig einn morguninn þegar við áttum leið hjá búðinni. Þar stóð stórum stöfum á forsíðunni sem sett var á skiltið fyrir framan búðina: WAR. Hann spurði mig hvort ég héldi að virkilega gæti verið að skella á heimsstyrjöld en við ákváðum í sameiningu að líklega væri verið að ræða um átök Kate Moss við einhverja umboðsmenn hennar eða eitthvað sem við höfðum óvart heyrt eitthvað um deginum áður þar sem við sátum á borði við hliðina á háværum breskum kerlingum.
Við nenntum ekki einu sinni að athuga málið betur, svo sannfærð vorum við um að STRÍÐIÐ sem um ræddi væri eitthvað sem okkur kæmi ekki hætishót við.
Mér finnst erfitt og rangt að geta ekki tekið neitt mark á fjölmiðlum. Ég tek ekki mikið meira mark á öðrum íslenskum fjölmiðlum. Né mörgum frönskum ef út í það er farið. En það er þó skárra að hafa ekki þennan sjokkstíl á bullinu. Er það ekki?
Annars er mín aðal fréttalind núorðið bloggið. Ég fæ allar helstu fréttir, innlendar og erlendar af því að lesa ykkur kæru bloggvinir. Og mun betur framreiddar. Stundum þarf ég að lesa þrjá til fjóra til að skilja alveg hvað rætt er um. Stundum skellir bloggarinn mér yfir á mbl eða visi með tengli. En þetta er samt mun betri leið til að horfa á umheiminn en að éta upp það sem fjölmiðlarnir segja manni að sé fréttnæmt.
Kannski bloggin eigi eftir að drepa prentuðu fjölmiðlana eins og franskir blaðamenn vilja meina? Og kannski er það bara vel?

Lifið í friði.