élskann
Maðurinn minn ber af öðrum mönnum, bæði hvað varðar gáfur og hversu mikið gagn er að honum heimafyrir. Þessa vikuna hef ég verið föst við tölvuna og hann hefur að mestu séð um að fæða, klæða, baða og fara út með börnin. Kann ég honum bestu þakkir fyrir það og er fullmeðvituð um að ekki hefðu allar konur getað leyft sér að hverfa svona frá heimilishaldinu, sérstaklega þar sem ég var heima allan tímann. Hann lætur mig alveg í friði og gerir sitt besta til að halda börnunum frá mér sem er erfitt verkefni þar sem við búum ekki svo vel að eiga sérstakt herbergi undir tölvuna. Hvorki húsbóndaherbergi né skrifstofu. En við gætum svo sem átt skrifstofu og verið bæði útivinnandi að vinna fyrir afborgununum og þá hefði ég ekki skotist í svona verkefni og ekki getað treyst á hann til að vera með börnin á meðan. Skiljið þið? Maður velur og hafnar og okkar val er að lifa smátt og vinna smátt. Í skorpum.En eitt gat ég þó ekki lagt á herðar honum þessa vikuna. Að kaupa afmælisgjöf fyrir litla vinkonu dóttur okkar. Ekkert frekar en að ég setti í þrjár vélar á dag alla þessa vikuna og lét mig ekki dreyma um að biðja hann um hjálp við það. Allir hafa sín takmörk. En þar sem verkefnið mitt gekk ágætlega í gær, ákvað ég að skella mér í bíltúr út í mollið hérna rétt hjá til að kaupa afmælisgjöf handa litlu dúllunni. Ég vissi hvað ég vildi og hvar það fengist. Mollið er í tíu mínútna akstursfjarlægð héðan svo þetta yrði ca. 40 mínútna pása fyrir mig þar sem ég fengi m.a.s. að sjá ókunnugt fólk sem er alltaf mjög þægilegt og gott.
Það var bara eitt lítið smáatriði sem ég hafði ekki tekið með í reikninginn: Fyrsti laugardagur útsölunnar. Til að gera langa sögu stutta og hlífa ykkur við lýsingum af öskrandi fólki að slást um stæðin og mannhafinu sem barðist um ódýrar skyrtur og Timberland skó svo Parísardömunni sem hefur óbeit á mollum og enn meiri óbeit á lummulegum tískuþrælum leið svo illa að í stað þess að drekka í sig ókunnugsfólksorku varð hún að loka sig inni í glerhjúpnum sínum sem eingöngu er tekinn fram í neyð, get ég bara sagt ykkur hvað það tók mig langan tíma að komast út af bílastæðinu. Getið þið nú. Hálftíma? Fjörtíu mínútur? Neihei, það tók mig sléttar 60 mínútur. Klukkustund. Frá því ég startaði bílnum og bakkaði út úr stæðinu sem beðið var eftir með óþreyju, silaðist ég þessa hvað... ég hef ekkert lengdarskyn, en ég var uppi og þurfti að fara eitt U, svipað U-unum í Kringlunni og svo niður brekkuna (ein hæð) og svo álíka lengd og meðfram Kringlunni öðrum megin og þá er maður kominn út á aðalgötuna. Þetta var eins og martröð. Ekki hægt að snúa við. Ekki hægt að leggja í stæði og fara inn og fá sér kaffi og bíða. Ekki hægt að gera neitt nema sitja þarna eins og fáviti með hinum fávitunum og bíða. Í lokin mölbrotnaði glerkúlan fína og ég var næstum farin að öskra af pirringi, rífandi í hár mitt.
Ég mæli eindregið með ferð til Parísar. En ég mæli alls ekki með því að vera á bíl og ég mæli alls ekki með fyrsta laugardegi útsölunnar.
Lifið í friði.
<< Home