24.1.06

gamalt efni

Ég var að leita að gömlum pistli sem ég fann ekki en datt niður á þennan í staðinn. Þetta er dálítið langt, en holl lesning:

HÚSMÓÐIR UM HÚSMÆÐUR
Ég var að lesa grein um bók sem var að koma út í Frakklandi sem sálfræðingur skrifaði um rannsóknir sínar á stressi húsmæðra. Þar kemur fram að streita hefur verið mæld í flestum störfum og að mörg störf eru viðurkennd sem sérlega erfið störf streitulega séð. Þessi sálfræðingur bendir á að samkvæmt hennar rannsóknum er húsmæðrastarfið jafn erfitt andlega og hjúkrunarkonustarfið og það að vera yfirmaður á skrifstofu. Hún segir jafnframt að í þessum geirum hafi verið lögð áhersla á viðurkenningu og umbun sem ráð gegn streitu, en að enginn veiti húsmæðrum svona hvatningu heldur séu þær frekar illa séðar af þjóðfélaginu, þykja afar óspennandi í boðum og margir líti svo á að þær geri bara ekki neitt, hangi bara yfir lélegu sjónvarpsefni alla daga.
[Bryn vinkona minnti mig einmitt um daginn á enska rannsókn sem leiddi í ljós að húsmæðrastarfið jafngilti að mig minnir 3 heilsdagsstörfum á ári, þ.e. að ef maður gerði ekkert sjálfur heima heldur fengi fólk í það, þyrfti að hafa 3 manneskjur í fullri vinnu.]
Í greininni voru vitnisburðir nokkurra kvenna, og sú sem er ánægð með líf sitt sem húsmóðir og móðir 3ja barna, segir að þrennt komi henni til hjálpar við að vera sátt við stöðu sína: mjög góður eiginmaður, brjálæðislega mikil skipulagning í heimilishaldinu þar sem börnin eru virkjuð til að hjálpa til og svo síðast en ekki síst að henni er skítsama um það hvað öðrum finnst um hana. Hún lætur t.d. börnin borða í skólanum tvo daga í viku þó margir hneykslist á því við hana.
Mér þykir þetta mjög áhugavert og vil minna á að öll störf sem fela í sér umönnun og uppeldi barna eru illa launuð og oft litið niður á þessar stéttir þjóðfélagsins. Samt erum við öll nokkuð meðvituð um þá staðreynd að þarna eru jú komandi kynslóðir og að það skipti máli að fara rétt að öllu til að byggja upp góða einstaklinga fyrir framtíðina, er það ekki?
Sálfræðingurinn kom með mjög gott dæmi til að fá útivinnandi fólk til að skilja hversu flókið húsmæðrahlutverkið getur orðið: Segjum að þú þurfir að gera stutta skýrslu fyrir fund eftir hádegi og ætlir að nýta morguninn í það. Tveir samstarfsfélagar þínir koma með vandamál til þín sem þeir þurfa aðstoð við að leysa og yfirmaðurinn kallar þig inn á skrifstofu til að bera undir þig nýja hugmynd sem þú átt að melta með þér. Á endanum gerir þú skýrsluna hroðvirknislega og mætir pirraður og óundirbúinn á fundinn með streitukúlu í maganum. Svona aðstæður eru daglegt brauð mæðra margra barna. Ein húsmóðir sagði henni sögu um það að hún ætlaði að fara að versla með tvö börn sín. Hún var rétt búin að koma þeim fyrir í bílnum þegar síminn hringdi. Þegar hún kom út á plan aftur var litli búinn að kúka og sá eldri grenjandi. Hún skipti á litla gaur og gaf þeim eldri djús að drekka. Þegar hún fór að setja þá aftur inn í bíl komst hún að því að klukkan var orðin of margt, hún myndi aldrei ná þessu fyrir kvöldmatartímann sem er heilagur fyrir börnin eins og allir foreldrar vita. Hún tók því alla inn aftur og settist niður við eldhúsborðið og grét. Þegar hún reyndi að segja manninum sínum frá þessu um kvöldið sýndi hann málinu engan skilning.
Málið er að konur í dag eru oft félagslega einangraðar þegar þær eru heima með börnin. Fjölskyldan býr oft of langt í burtu til að hægt sé að hittast reglulega, vinkonurnar eru allar úti að vinna og ekki býr maður til vinkonur úr þessum konum sem maður hittir úti í almenningsgarði, maður á yfirleitt ekkert sameiginlegt með þeim eða nær a.m.k. aldrei að komast að því þar sem það kurteislega hjal sem þar fer fram snýst aðallega um aldur barnanna og hvernig þau sofa og borða og hvort þau eru dugleg eða sein til í þroska. Ég hef a.m.k. aldrei prófað að ræða bókmenntir eða bíó við konurnar úti í garði. Kannski ætti maður að gera það einn daginn, ég ímynda mér samt að þær myndu horfa á mig eins og eitthvað viðundur og mjaka sér hægt í burtu frá mér eins og maður gerir ef maður lendir á sérlega leiðinlegri mömmu.
Ég er mjög heppin því ég á mikið af góðum vinkonum sem nenna að hlusta á mig og eru sjálfar í þessum barnapakka, og svo á ég líka nokkrar vinkonur sem nenna alls ekki að tala of mikið um svona mál þar sem þær eru alls ekki í þessum pakka. Bæði er mjög gott og gefandi. Reyni að hitta vinkonurnar reglulega til að afmamma mig aðeins eins og Agnes kallar það.
Svo er ég líka svo heppin að eiga yndislegan mann sem býr oft til matinn og gengur frá í eldhúsinu og vaknar t.d. alltaf með þessum morgunhönum sem við eigum og leyfir mér að sofa aðeins lengur. Ekki má gleyma því að við getum leyft okkur að fá konu í tvo tíma á viku sem ryksugar og þrífur. Ég elska þá konu svo mikið að engin orð fá því lýst, hún er eiginlega engillinn minn.
En best af öllu er þó að ég er farin að vinna aðeins aftur. Það er nóg að gera hjá okkur þessa dagana og ég er örþreytt á kvöldin. En ég er samt svo ánægð með að komast aðeins burt frá heimilinu og hversdagslífinu og hitta ókunnugt og skemmtilegt fólk og geta deilt með þeim þessari dásamlegu borg minni.
Öll þessi atriði gera það að verkum að ég mun að öllum líkindum halda geðheilsu minni meðan ég kem börnunum á legg. Málið er að það er fullt af konum út um allan heim sem gera það ekki. Þær eru meira og minna þunglyndar og oft gengur það svo langt að það endar með ósköpum og ofbeldi. Börn út um allan heim eru lamin af mæðrum sem, um leið og þær slá til barnsins, engjast um af kvöl inni í sér. Þjóðfélagið verður að gera eitthvað í þessu, það er ekki hægt lengur að láta eins og ekkert sé. Stórum fjármunum er ausið í að fá okkur til að hætta að reykja, væri ekki mikilvægara að koma á fót fleiri barnaheimilum, gefa konum kost á að fá frí frá börnunum þó ekki væri nema einn, tvo daga í viku? Kannski myndu m.a.s. reykingar húsmæðra snarminnka ef þær hefðu tíma til að hugsa aðeins um sjálfar sig og gætu styrkt sjálfsmatið.
Ég var að pirra mig um daginn á öllum þessum vörum sem eru gerðar með setningum eins og "I love my mummy" eða "mamma er best". Mér fannst svona framleiðsla ganga út á að gera lítið úr okkur mæðrum, gera ráð fyrir því að við værum svo frústreraðar að við þyrftum að sannfæra sjálfar okkur um að börnin elskuðu okkur svo og svo mikið. En líklega eru þessar vörur framleiddar af góðum hug og af góðu fólki sem skilur það að oft er eina hrósið sem við fáum okkar eigin sjálfshól og bolir og smekkir sem við getum klætt börnin okkar í og lesið á þeim að þau elski okkur um leið og þau frussa matnum út úr sér yfir nýskúrað gólfið.

Nokkrir hlutir sem "venjulegt fólk" getur byrjað að gera til að hjálpa húsmæðrum að halda geðheilsunni:
Hrósaðu mömmunni fyrir hárið, peysuna eða varalitinn í staðinn fyrir að segja að barnið sé fallegt.
Segðu öllum húsmæðrum frá ensku rannsókninni og dáðstu að þeim fyrir dugnaðinn (þó að íbúðin sé í rúst og horið leki úr barninu).
Dragðu húsmóðurina út í bíó eða á tónleika við og við. Ekki hlusta á hik hennar, píndu hana til að redda barnapíu ef pabbinn getur ómögulega komið heim úr vinnunni á skikkanlegum tíma.

Nú er ég farin að hljóma eins og einn af þessum tölvupóstum sem ég er alltaf að fá þar sem konur stunda sjálfshól sér til styrkingar. Best að hætta núna.