23.11.05

jól og leikir

Mér giskast helst til að fólk sé að upplifa jólin fyrirfram í boði kringlunnar og kókakóla í gegnum allar þessar getraunir út um alla bloggheima.
Spjallaði við konu í gær um að tíminn líður svona hratt vegna þessa áreitis um að hugsa og skipuleggja fram í tímann sem markaðsviðurstyggðirnar bjóða manni að gera. Það verða jólavörur á boðstólnum rétt fram í fyrstu viku af janúar og um leið og þeim verður rutt út á öskuhauga eða ofan í kjallara fram í næsta október verður farið að hlaða páskasúkkulaði, páskaskrauti og páskabjánalátadóti í hillurnar.
Ég er viss um að ég er ekki ein um að finnast nóvember hafa gengið í garð í fyrragær. Og nú er maður farinn að fá mánaðarmótakitlið í magann. Er þetta eðlilegt?
En ég ætla að gera eina getraun enn. Sú fyrri var auðveld, ég vissi það alveg enda er þessi getraun aðallega fyrir þær sem finnst þær vera utangátta í getraunum klára liðsins þarna hinum megin á blogghnettinum ógurlega.
Ég hugsa sem sagt um persónu og þið megið spyrja beinna spurninga (já og nei spurninga eins og það heitir hjá okkur kjánunum).

Lifið í friði.

úpps, hvern á ég að hugsa um????