15.11.05

hræðsla

Mér finnst Bush mjög óhugnalegur maður. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég sá hann tilkynna það að hann ætlaði að biðja fyrir fórnarlömbunum, þegnum sínum, í New Orléans. En að vera hrædd við öfgalið sem kannski ræður einhverju í einhverjum skóla í einhverju úthverfi í einhverju fylki fyrir það að kenna krökkunum að þyngdarlögmálið sé ekki til og að þróunarkenningin standist ekki? Nei, ég er ekki hrædd við það. Er ég heimsk fyrir það?
Mér finnst gaman að spá í það að kannski sé þróunarkenningin vitleysa. Mér finnst gaman að spá í það að kannski sé líf á öðrum hnöttum. Ég veit í raun ekki mikið um vísindi, hætti fyrir löngu að drekka í mig fróðleik og efni um þesslags. Fór að stússast í hversdagslífinu og að koma upp fjölskyldu og svona.
Mér finnst allt í lagi að einhverjir segi að Guð ýti hlutunum niður að jörðunni og að þess vegna komi boltinn niður til þín aftur. Guð ýtir honum til þín. Mér finnst þetta krúttíleg tilhugsun og skemmtileg. Ég get ekki sannað hana og ég hef ekki græna glóru um það hvort virkilega er búið að sanna þróunarkenninguna, hvort ekki sé möguleiki að finna gloppur í henni. Mér þætti það ýkt spennandi.
Mér finnst heimurinn skrýtinn staður og hef valið að gera hann sjálfri mér eins skemmtilegan og hægt er. Ég efast um hluti mér til skemmtunar. Og hef gaman af fólki sem efast um það sem "allir vita". Af hverju þurfum við öll að vita það sama? Mega ekki einhverjir vita það að Guð ýtir okkur, heldur okkur við hnöttinn?
Mér fannst það einna skemmtilegasti hlutinn í Friends þegar Phoebe tók Ross á taugum með svona hluti. Yfirnáttúrulegt eða konkret. Hvort er skemmtilegra?
Mér finnst að fólk eigi ekki að taka heiminum of alvarlega. Ég er ekki að meina að alvarlegir hlutir séu ekki að gerast og að auðvitað þarf ýmislegt háalvarlegt að eiga sér stað á hverjum degi út um allt. En hlægjum líka. Og hættiði að horfa á sjónvarpið sem dælir eintómri lygi og mikið af hræðslu yfir ykkur. Auðvitað megið þið öll horfa á sjónvarpið, ekki misskilja mig, þegar ég kem með svona setningar ætlast ég engan veginn til þess að þið hlýðið mér í blindni. Og þætti það fáránlegt. Lífið er fallegt og skemmtilegt. Ef við viljum það.

Lifið í friði.