14.11.05

hikandi andi andi á mig

Mig langar svo að blogga því mig langar í samskipti. Er alein hérna á mánudagsmorgni og þarf að gera þúsund hluti áður en sonurinn, tveggja ára í dag kemur heim en langar meira að hanga í tölvunni og langar að tala um svo margt misgáfulegt og samt er ég hrædd um að færslan verði étin.
Í gær héldum við upp á afmæli Kára fyrir vinina, hér voru 6 börn og 10 fullorðnir og mikið gekk á. Ég vígði vöfflujárn ömmu minnar sem hefur setið ásakandi uppi í skáp í áraraðir. Það er svo auðvelt að gera vöffludeig að ég sárskammast mín og mun héðan í frá baka vöfflur mun reglulegar. Eða ekki. En vöfflur eru góðar, svínvirkaði í börnin, djöfull er ég fegin að hafa ekki farið út í flóknar kökur sem litu út eins og bílar. Bara rice krispies kökur í muffins formum, nokkur mogm og vöfflur. Djús með og allir alsælir.
Kári var stóískur, sposkur á svip og neitaði að blása á kertin en fylgdist með þegar það var gert án svipbrigða, kannski vottaði fyrir glotti. Hann er klár en flinkur að líta út fyrir að vera það ekki. Tungan hálf út og engin viðbrögð við tilraunum fullorðinna til að kæta hann og gleðja. Hann er alsæll með pakkana, bílar og göng og púsluspil og bílar. Blívur.
Næstu helgi kemur svo franska fjölskyldan. Það verður meira stress fyrir húsmóðurina mig. Allt þarf að vera óaðfinnanlegt og helst þarf íbúðin að líta út fyrir að vera stærri þó hún verði yfirfull af fólki. Einhver ráð? Vala, ertu þarna? Les Vala Matt mig ekki? Stór spegill á skáphurðina í anddyri/stofunni er á dagskrá en ekki á næstunni því það kostar of mikið. Held við verðum fyrst að kaupa sófa. Skirflið okkar er, sýnist mér, farið að mygla. Ég reyndi að þrífa hann með einhvers konar sófasjampói en gerði bara illt verra. Mig vantar sófa. Hef verið að bíða lengi eftir að vera boðinn gefins sófi. Þannig hef ég eignast öll húsgögnin hér inni sem koma ekki upp úr flatpökkum frá Ikea frænku. Hjá henni er nú gerfileðursófi á rokna tilboði en ég held að hann sé ekki nógu góður. Og ekki svefnsófi sem er nauðsynlegt hér. Mig langar í leðursófa því þá er hægt að þvo með tusku. Sem er óneitanlega kostur fyrir barnafólk sem sjálft borðar súkkulaði í sófanum á kvöldin.

Ég kannast við einn edduverðlaunahafa frá í gær. En ég skil ekki af hverju þetta er árlegt á Íslandi. Líklega partýþráin sem hvetur til þess. Gaman að fara í frægafólkspartý.

Annars horfði ég aftur á þennan eina þátt sem ég horfi nú á í frönsku sjónvarpi, Arrêt sur Images eða "Fryst á mynd". Aftur fjallaði þátturinn um óeirðirnar hérna en nú um umfjöllun í erlendu sjónvarpi. Fox news sögðu Katarínu vera hjóm í samanburði. Þeir eru óhugnalega heimskir, lygnir og viðurstyggilegir. Manni verður um og ó að hugsa til þess að einhverjir horfi á þetta bull í góðri trú um að þarna fari sannleikur.
Einnig var "sniðugt" að sjá rússana tala illa um múslimi með tengingum í Tjétjéníu. Mín reynsla af íslenskum fjölmiðlum er sú að þeir vildu ekki vitna í mig af því ég vildi ekki segja það sem þeir vildu heyra. Að allt væri logandi. Hér var ekki allt logandi. Örlítill hluti af örlitlum hverfum hér og þar loguðu kannski og fólk var reitt og spennt en afar fáir lentu í miðjum átökum. Afar fáir og ÞAÐ er sannleikurinn sem hentar ekki fjölmiðlunum sem eru á kafi í spektakúlarinu. Fyrirgefið mér en ég finn ekkert íslenskt orð. Skemmtigildinu. Ekki alveg það sem ég meina. Sjóinu. Ekkert betra orð, frekar orðleysa, en nær aðeins meiningunni. Fyrirgefið mér og yður mun fyrirgefið vera.

Lifið í friði.