11.9.05

hvíld

Í dag var hvíldardagurinn svo sannarlega haldinn heilagur á þessu heimili. Ekki veitti af eftir langa og stranga viku. Nú er bara ein löng en ekki eins ströng vika eftir og svo þrír dagar í viðbót við það og svo erum við flogin á ströndina.
Ég er sannfærð um það eftir vinnuna í sumar að Íslendingar hljóta að vera með bestu þjóðum í heimi, þrátt fyrir allt sem manni finnst að betur mætti fara þarna uppi á Fróni. Íslendingar eru almennt skemmtilegir og hugrakkir sem mér finnst góðir mannkostir.

Eldaði fiskisúpu í gær fyrir vinkonur mínar, blandaði saman uppskriftum úr bókinni hennar Jóhönnu Sveins, Hratt og bítandi, og Áttu von á gestum? sem er snilldargóð bók. Súpan var góð og enn betri í dag.
Þetta notaði ég í hana:
Laukar, hvítlaukur, timjan, cayennepipar, salt og pipar, kúmín, paprikuduft, tómatar í dós með safanum, mikið af þurru hvítvíni, vatn, steinbítur og lúða, rækjur og kræklingur úr krukku með safanaum. Algert nammi. Það er verst að ég notaði heila flösku af víni sem er næsta ómögulegt heima vegna verðsins. En sumir nota mysu í stað hvítvíns, ég hef bara prófað að sjóða fisk upp úr mysu og það var fínt. Hvenær ætli verð á vínum verði heilbrigt á Íslandi? Þegar það gerist, flyt ég kannski heim. Ekki fyrr.

Ég er á því að Nanna Rögnvalds sé ein af örlátustu konum sem ég veit um. Hún gefur svo mikið af upplýsingum á blogginu sínu varðandi mat og matargerð að það mætti halda að hún byggði ekki lífsafkomu sína á þessu. Ég sé oft eftir því að hafa ekki skellt mér á Matarást þegar ég fann hana í Kolaportinu fyrir nokkru síðan. Ég átti bara ekki krónu með gati þá. Ég er harðákveðin í að fá þá bók í jólagjöf í ár. Mér finnst það leiðinleg þróun í þjóðfélaginu að fólki finnst ekki lengur eðlilegt að gefa upplýsingar. Allt á að vera til sölu eingöngu. Að manni finnist örlæti Nönnu vera stórmerkilegt og óvanalegt er gott merki um þetta ástand.

Lifið í friði.