15.9.05

gráa efnið

Eini frídagurinn minn fram að brottfarardegi og hann er dökkgrár sem er ágætt því ég ætla að gera ýmislegt bráðnauðsynlegt innandyra í dag. Ég ætti kannski ekki að kalla þetta frídag þó ég sé ekki að vinna fyrir kaupi í beinhörðum peningum því ég verð áreiðanlega á fullu fram á kvöld en þetta er víst dæmigerðara fyrir konur en menn að finnast það vera frí að vinna í heimilinu en mér finnst það reyndar alls ekki neitt frí og fyrir mér væri frídagur að klæða mig upp og fara með bók niður í bæ og setjast á kaffihús og daðra smá (þetta leyfi ég mér að skrifa þar sem maðurinn minn skilur ekki tungumálið mitt þó að reyndar sé hann farinn að lesa mig, skilur eftir athugasemdir við og við... ætti ég að strika þetta út til að forðast óþarfa árekstra? nei, þetta stendur því þetta er svo smart tilhugsun að sitja með bók á kaffihúsi niðri í bæ og daðra) og fá mér salat og vínglas í hádegismat eins og ekta parísarpæja og kíkja svo kannski í eina aðeins of dýra búð fyrir mig og svo í HogM og finna kannski eins og eitt pils fyrir fríið. En nei, verð að fara í vinnugallann og pússa og mála bæði veggi og skrifborð og ef ég get, verð ég að endurspasla utan um illa hannaða baðkarið okkar því það eru víst komnir blettir í loftið á nýuppgerða baðherberginu fyrir neðan okkar. Hvað kostar nýtt baðkar? Svoleiðis hluti vill maður ekki þurfa að eyða í. Alls ekki óþarfi en... get ímyndað mér meira spennandi hluti en að kaupa baðkar. Til dæmis tölvu. Sem ég ætla að gera á morgun. Litla fartölvu. Og eftir það get ég vonandi fixað stóra borðhlunkinn minn aðeins svo hann geti hlustað á útvarpið og séð Kastljósið, djöfullinn að hafa ekkert séð um brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum, maður er nú eiginlega bara hálfur Íslendingur fyrir vikið...

Annars er ég harmi slegin. Þriðjaheimsástandið sem ríkir hjá W finnst mér óbærilega óhugnalegt, lausnir forsetans eru BÆNIR! erum við að tala um W eða einræðisherra í litlu spilltu Afríkuríki??? Ástandið í Írak virðist svo vonlaust að manni verður óglatt við tilhugsunina og svo fannst mér afar erfitt að lesa um sjóslysið á Íslandi. Hugur minn staldraði hjá fólkinu sem ætlaði að ganga fjörur, það yrðu vinir og kunningjar hins týnda, sagði Mogginn. Ég get varla ímyndað mér þungbærari skref að taka.
Kannski var ég mest sorgmædd yfir Íslendingunum. Kannski meira en yfir fólkinu í New Orleans eða Írak. Ég veit það ekki, hvernig getur maður mælt harminn? Mælt þyngdina sem leggst á brjóstið? Í kílóum eða tárafjölda (sem í öllum þessa tilfella var núll - ég græt stundum yfir fréttum en ekki þessa dagana). Kannski er ástæðan líka að ég gæti alveg lent í því að einhver byði mér út á bát með manninum mínum og svo hyrfum við öll í hafið meðan mér finnst ómögulegt að ímynda mér stórflóð ryðja burtu húsunum á hæðinni sem ég bý á eða sprengjutilræði á hverju götuhorni í þessari friðsælu borg minni. Kannski.
Kannski vegna þess ég þekkti "unga manninn sem lést í slysinu í gær" fyrir nokkrum árum og síðan þá hefur þessi tegund frétta alltaf mikil áhrif á mig, fær mig til að endurupplifa örvæntinguna og hræðsluna og reiðina sem grípur mann þegar maður þarf að horfast í augu við dauðann?
Kannski vegna þess að eftir að þurfa að horfa á eftir einhverjum bíður maður stöðugt eftir því að það gerist aftur? Lýstur því ekki alltaf í huga minn að kannski hafi verið reynt að hringja í mig, kannski sé þetta einhver úr minni fjölskyldu, mínum vinahópi, kunningi kunningja og að þá verði atburðurinn óþolandi konkret, hættir að vera þessar klisjukenndu setningar og ólýsanlega óljósu lýsingar og verður harður og nöturlegur raunveruleiki um móðurina sem grætur svo mikið að hún fær sprautur og föðurinn sem grætur svo lítið að hann þarf sprautu líka og litla barnið sem spyr aftur og aftur og...

En það sem maður lærir af því að jafna sig á dauðsfalli er einmitt að lífið heldur áfram og teymir okkur sem eftir stöndum á eftir sér og að það þýðir ekkert að vera með óhemjugang og það er ekki glæpur að byrja að brosa aftur og kannski er það eðlilegt að liggja í sófanum og grúfa sig ofan í fréttir af ömurlegu slysi og standa svo upp, dæsa, og grípa málningarpensilinn: Best að drífa þetta af. Þetta VERÐUR að gerast. Verður? Hvað ef ég geri það ekki? Við drepumst varla?

Svo fékk ég annars konar blústilfinningu við að glugga í Lesbókina. Ég treysti mér ekki til að lesa neitt í heilu lagi, ég þoli ekki þessa helvítis höfunda, þetta djöfuls pakk sem lifir á skriftum meðan við skrimtum hérna og sóum skriftarhæfileikum okkar út af péningum sem við neyðumst til að eiga til að lifa.
Ræddi heillengi um þetta við manninn minn í gær. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef við vildum bæði reyna að skrifa bók, yrðum við að gera það á næturnar. Málið er að yfirleitt dettum við niður fyrir klukkan ellefu og oft fyrir klukkan tíu. Hvernig í ósköpunum ættum við að koma út úr okkur setningum á blað svona örþreytt sem við erum á kvöldin?
Hvernig fer þetta fólk að? Þetta lið sem leikur lífshlutverkið rithöfundar? Helvítis forréttindapakk og ekkert betra en ég!

Lifið í friði.