13.9.05

fólk í fréttum

Ótrúlegt en satt, Frakkar eru á álíka róli og Íslendingar varðandi þróun á fólk í fréttum í blaðaútgáfu. Þ.e.a.s. við erum ekki komin eins langt og Bretar en stefnum hraðbyri á að ná þeim innan skamms í kvikindisskap og vanvirðingu við hin virðingarverðu fyrirbæri friðhelgi einkalífsins og persónuvernd.
Og eins og Íslendingar sjá Frakkar, sem betur fer, ástæðu til að ræða þetta á alvarlegum nótum í sjónvarpinu. Það er ástæða til að ræða þessi mál, finnst mér, og sýnir að við erum ekki orðin gersamlega siðblind þó að ÞEIR vilji einmitt að það gerist. Alveg eins og ÞEIR vilja eyða bragðskyni okkar og lyktarskyni, vilja ÞEIR losa okkur undan því oki að hugsa um hvað gæti verið rétt og rangt, við eigum bara að taka inn ÞEIRRA málstað án nokkurrar gagnrýninnar hugsunar.
Hverjir eru ÞEIR? Þeir eru stórfyrirtækin sem selja okkur mestmegnis óþarfa blandaðan nauðsynjavörum og erfitt er að greina skilin. ÞEIR eiga flest útgáfufyrirtæki og selja okkur jafnt "alvarlegar" fréttir af hungursneyðum, fellibyljum og stríðum sem og "léttmeti" eins og ástarmál Bubba (á Íslandi í sumar) eða Sarkozy (í Frakklandi í sumar). ÞEIR finna sífellt nýja markhópa, ný svæði fyrir auglýsingar og nýjar vörur að pranga inn á okkur. Það óhugnalegasta er að stórfyrirtækin eiga ekki bara fimmta valdið, fjölmiðlana, heldur eiga þeir oft mismikið í hinum valdastofnununum eins og t.d. dómstólum og jafnvel stjórnvöldum.
Þetta er ekki einskorðað við bananalýðveldið Ísland, það sama gerist hjá stóru "alvöru" ríkjunum eins og Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi. Það er bókstaflega hættulegt að trúa öðru.
Við getum ekki endalaust huggað okkur við að þetta sé allt í lagi á Íslandi því við erum svo smá og höfum svo lítil áhrif. Við erum alveg eins og hinir þrátt fyrir ákveðna sérstöðu. Það er allt í lagi að vera nett þjóðernissinnaður á Íslandi, en það er ekki í lagi að lýðurinn sætti sig við yfirgang og frekju stórfyrirtækjanna án þess að æmta eða skræmta, ekki frekar en að það er ekki í lagi hér í Frakklandi.
Það versta er að þó að talað sé um þessi mál á "alvarlegum nótum" í sjónvarpsþáttum virðist samt þróunin halda áfram og áfram og áfram. Það er ekki nóg að vera meðvitaður um galla sína. Það er ekki nóg fyrir stelsjúkan mann að viðurkenna stelsýkina og halda svo bara áfram að stela. Það er ekki nóg fyrir feitu stelpuna að vita að nammi er ekki gott fyrir hana og halda svo bara áfram að éta nammi.
Það verður að gera eitthvað. Eitthvað.
Fyrsta skrefið er vitanlega að verða meðvituð og reyna að breyta sínum lifnaðarháttum. Næsta skref?

En mikið er nú samt gaman að lifa og gaman að lesa blogg og gaman að skrifa blogg og mikið er gaman í þessum helvítis heimi.

Lifið í friði.