8.9.05

hæ hó og dillidó

Það er svo gaman að vera ég.
Ég er svo þakklát fyrir líf mitt.
Ég á frábæran kall sem eldar OG baðar börnin þegar ég kem þreytt heim úr vinnunni og ég á börn sem kennarar og fóstrur kalla "adorables" og ég er þeim sammála.
Ég er ekki búin að drekka neitt nema vatn en samt svona væmin.
Á ég að tala um flóð og rányrkju sem er kannski lygi samkvæmt tölvupósti sem barst mér í dag og á að vera frá manni í miðri skemmdri borginni sem segir að allt sé í fína nema það þurfi hjálp til að laga til? Á ég að tjá mig um það? Neih, það ætla ég ekki að gera.
Ég er búin að fá meira en nóg af fréttum sem afbaka raunveruleikann og því er ég nokkurn veginn alveg hætt að horfa á fréttirnar og finnst mun meira varið í að lesa blogg fólks um daglegt líf og amstur og held að það væri hverjum manni hollara að gera það sama. Ég þyrfti kannski að lesa meira af útlenskum bloggum, en það er eitthvað sem ég nenni samt ekki.
Ég er komin með algert ofnæmi fyrir sjónvarpinu, ef ég dett inn á einn af viðtalsþáttunum fæ ég strax ógeðistilfinningu hvort sem rætt er við unglingastjörnu eða aldraðan pólitíkus, heyri sama kjaftavaðalinn sama bullið og finn lygina sem er klínt framan í mig. Flýti mér að setja myndbandið í gang til að losna undan þessari viðurstyggð.
Malcolm er hættur og ég er búin að rannsaka alla dagskrána til að athuga hvort eitthvað gæti verið varið í aðrar seríur sem eru í gangi: Dallas (gæti verið fyndið en bara eitt kvöld), Rex (herremingud ég horfði einu sinni á Rex sem var sýndur í RÚV á föstudagskvöldum ef ég man rétt (sic) og ég var fárveik og batnaði ekki), Les Feux de l'amour (sem er nákvæmlega sama varan og Bold and the beautyful nídæseimor), La grande famille (post Dallas nútímafjölskylda með Bobby í aðalhlutverkinu þrjár mínúturnar sem ég sá um daginn dugðu til að ég ældi næstum því), McYver (man ekki hvort það er skrifað svona, var hann einhvern tímann sýndur á Íslandi? eitt af því sem Bibba lét mig stundum horfa á hérna fyrir þó nokkrum árum) og svona má áfram telja. Derrick virðist vera hættur, ég held að hann hafi alltaf verið sýndur síðan ég kom hingað út. Hann klikkar nú ekki.
Aðalhöfuðverkurinn er að Örvæntingarfullar húsmæður byrjuðu í kvöld Á FRÖNSKU og mig langar það ekki enda eru þær bara sýndar einu sinni í viku en mig vantar daglegt hálftíma, þriggjakortera brauð með áleggi. Ég vil fá Malcolm aftur. Strax!

Svo verð ég að fara að finna eitthvað að blogga um, mér líður eins og ég sé að verða meira og meira sjálfhverf hérna. Ellimerki? Þreytumerki? Frí eftir rétt tæpar tvær vikur. Fékk upplýsingar um helstu súpermarkaði á svæðinu sem ég verð á, hlakka til að fara að kaupa í matinn í öðru landi. Minnir mig á það sem einhver örvæntingarfull húsmóðir sagði einhvern tímann: Frí, það er svona þegar maður fær nýjan vask til að vaska upp í í þrjár vikur og uppþvottavélin er heima í alvöru fríi.
Mikið finnst mér alltaf gaman að gera setningar með í í.

Lifið í friði.