le travail c'est la vie
Segja Frakkarnir. Ég sé fram á stanslausa vinnu fram að fríinu. Ekkert að kvarta, bara hálfstressuð. Og næ ekki að sofa á næturnar. Og svara varla tölvupóstum nema þeim sem eru prófessíonal. Og finnst ég vera með allt niðrummig og hef stanlaust á tilfinningunni að ég sé að gleyma einhverju. Er að hugsa um 7 hópa, tvö börn og einn karl. Halló! Ég gekk svo langt að segja við kvöldverðarborðið í gær að ég ætlaði að byrja að pakka strax. Maðurinn minn bannaði mér að taka fram töskur, enda myndu börnin nota þær sem kofa og dót sem færi ofan í þær myndi týnast. Nóg drasl hér samt þó að ekki sé bætt við ferðatöskum upp á borðstofuborð. Þetta er auðvitað rétt hjá garminum.Þetta verður allt í lagi. Allt gengur vel. Er búin að skrifa flest niður og hlýt að hafa pantað alla veitingastaði og rútur sem ég hef verið beðin um. Og sagt og skrifað réttar dagsetningar og tíma. Og ég kann 2000 ára sögu Parísar svo til utan að. Og auðvitað get ég blöffað mig út úr degi með arkítektum. Þetta verður allt í lagi.
Hjálpaðu mér upp mér finnst ég vera að drukkna.
Og Sólrún byrjar í skólanum á morgun. Auðvitað kvíði ég því eins og kjáni. Hún er búin að vera tilbúin og hlakka til síðan snemma árs. Foreldrar eru líklega eitt af heimskari fyrirbrigðum mannrófsins.
Lifið í friði.
<< Home