28.7.05

vestræn mildi

Mér finnst gaman að lesa hugleiðingar nokkurra bloggara um vestræn gildi. Þetta hugtak fer ógurlega í taugarnar á mér, mér finnst það yfirlætislegt og dæmin sanna að hugtakið er misnotað og að auðvelt er að gera það í skjóli þess hversu óljóst það er hvað hugtakið þýðir í raun og veru.
Ég hef séð talað um fjögur gildi: Tjáningarfrelsi, kvenfrelsi, lýðfrelsi og æ, núna verð ég að fara og kíkja, best að sjá þetta hjá Varríusi (enginn tengill enn hjá mér, sorrí, þið finnið hann í gegnum Gvendarbrunn). Jahá, fyndið að ég skyldi gleyma blessuðu trúfrelsinu. (Það er annars gaman að lesa Varríus stundum, set tengil á hann við tækifæri).
Þið munuð segja mér að allt í heiminum hafi gloppur, að ekkert sé gersamlega skothelt, að alltaf sé hægt að horfa á það neikvæða og kannski eitthvað fleira, en mér finnst það algerlega óþolandi að við skulum halda það að við búum við þessi fjögur frelsi hér fyrir vestan. (Ég ætla að leyfa mér það að tala um frelsi í fleirtölu hér, það undirstrikar skömmina sem ég hef á þessu húmbúkki).
Tjáningarfrelsi: Í Frakklandi ríkir víst tjáningarfrelsi. Það má samt ekki gefa út Mein Kampf eftir Adolf heitinn Hitler. Það ríkir því tjáningarfrelsi með ákveðnum hömlum. Settum af kerfiskörlum sem ákveða að eitthvað sé of ljótt til að okkur sé treystandi fyrir að lesa það. Ég er alfarið á móti svona hömlum, ég hef engan sérstakan áhuga á að lesa Mein Kampf en mér finnst að mér eigi að vera það frjálst, ég tel mig fullfæra um að dæma sjálf hvort ég sé að lesa skít eða ekki.
Kvenfrelsi: Þarf að segja eitthvað. Dómurinn sem féll í Keflavík fyrir nokkru, þar sem maður fékk mildaðan dóm fyrir að berja konuna sína af því hún hafði verið svo LEIÐINLEG við hann, dugði til að afhjúpa það sem við konur höfum svo sem alltaf vitað. Það ríkir kvenfrelsi upp að vissu marki, með ákveðnum hömlum, settum af kerfiskörlum eins og öll önnur frelsi sem við teljum okkur búa við.
Lýðfrelsi: hvað í fjáranum er það eiginlega?
Trúfrelsi: Tja, ég get svo sem samþykkt það að við á Íslandi megum alveg trúa á það sem við viljum, en það er nú alltaf dálítið fyndið að fylgjast með málum Þjóðkirkjunnar og ofurvaldinu sem hún virðist hafa á ákveðnum sviðum. Og ég vildi óska þess að maður eins og t.d. Egill Helgason eða einhver annar vinsæll persónuleiki snerist skyndilega til íslamskrar trúar. Sjá andlitið detta af þessu skilningsríka trúfrelsisfólki sem byggir Ísland.

Voilà, þetta er stytt útgáfa af pistlinum sem ég hugsaði upp meðan ég keyrði um París á flutningabíl í morgun. Nenni ekki að hafa hann lengri því dagurinn er orðinn nógu langur samt.

Svo vil ég koma því á framfæri að mér finnst GÁFUMAÐUR og GÁFAÐUR MAÐUR ekki vera skammaryrði. Er það satt sem var haldið fram á athugasemdakerfi Varríusar að á Íslandi væri þetta orðið skammaryrði? Það þykir mér leitt að heyra. Vantar gáfumenn og mikið af þeim (og nú finnst mér ég verða að minna enn og aftur á að konur eru líka menn).

Lifið í friði.