21.7.05

Mér finnst ég eigi...

...að skrifa um Harrý. Ég las hinar bækurnar og hafði mjög gaman af. Ég sagði við vinkonu mína sem lánaði mér þær að ég ætlaði að finna eitthvað á höfundinn til að neyða hana til að ljá mér næstu bók strax. Ég lét aldrei verða af þessum djöfullegu áætlunum og nú man ég varla nöfn aðalpersónanna og er algerlega laus við að liggja á að fá bókina í hendur. Ég veit líka að það verður voðalega lítið mál að fá hana lánaða eftir einhvern tíma.
Ég ákvað fyrir nokkrum árum að herða sultarólina með því að kaupa ekki bækur og geisladiska. Auðvitað kaupi ég stundum bækur, en mun sjaldnar en áður en ákvörðunin var tekin. Reglan er að fá bækur lánaðar, hjá vinum eða úti á bókasafni. Svo á ég gott safn bóka og finnst gaman að endurlesa margar þeirra og geri mjög reglulega.
Ég myndi aldrei kaupa mér bækur eins og Harrý Potter. Mér finnst það alger peningasóun. Ég keypti mér nú samt reyfara um daginn. Hann er skrifaður af tveimur systrum sem hafa gefið út þrjá í viðbót um sama bóksala/leynilöggu.
Bækurnar gerast í París rétt fyrir aldamótin 1900. Ágætis afþreying sem ég hefði vissulega getað tekið á bókasafni. Mun áreiðanlega ná í framhaldið þar. Það voru bara sérstakar aðstæður, ég var afar niðurdregin niðri í bæ og þurfti að koma mér heim í metró og var ekki með neitt að lesa. Hefði verið ódýrara að kaupa eitthvað glysblað í blaðsöluturni en ég veit að glysblöð draga mig alltaf niður svo ég kaupi slíkt aðeins þegar ég er í uppsveiflu.
Svo ég rölti inn í eina af fáum litlum bókabúðunum í París, sem tilheyrir ekki stórri keðju, og rakst á þessa bók innan um stóra stafla af öðrum bókum. Hún orgaði á mig með teiknuðum Eiffelturni utan á kápunni. Og ég hlýddi orginu og sé ekki baun eftir því. Það er gott að setja sér viðmiðunarreglur en afar óhugnalegt að brjóta aldrei reglurnar sínar.

Í dag er ég pínulítið niðurdregin því Sólrún er farin með ömmu sinni og afa til Grikklands. Bæði er ég að kálast úr afbrýðisemi, væri til í að flatmaga á strönd með bók í tvær vikur einmitt núna og svo er hræðilegt að horfa á eftir dóttur sinni vitandi að maður fær ekki að sjá hana í tvær vikur. En ég er búin að ræða þær undarlegu kenndir sem fylgja aðskilnaði við börn hér og ætla ekki að kvelja ykkur með endurtekningu á því. Sumar vísur er hægt að kveða of oft.

Lifið í friði.