26.7.05

ekki bend'á mig

Ég er næstum sannfærð um að lögreglan í London beið eftir tækifæri til að taka eitthvert hentugt fórnarlamb af lífi til viðvörunar öllum þeim sem gæti dottið í hug að vera með hrekki í taugaveikluðu andrúmslofti borgarinnar.
Mér finnst þetta hryllilegur atburður, alveg jafn ömurlegt að hugsa til ættingja þessa drengs eins og ættingja þeirra sem létu lífið í sprengingum hryðjuverkamannanna. Alveg eins og mér finnst ömurlegt að hugsa til fólksins í Írak sem á um sárt að binda vegna vina- og ættingjamissis. Og alls staðar annars staðar.
Mér finnst það hneisa að íslensk stjórnvöld standi ekki með Íslendingum sem berjast fyrir réttindum arabanna í Palestínu.
Mér finnst rigningin ekki góð.
Mér þykir leitt að geta ekki hlustað á RÚV, hafa aldrei heyrt í gryllhorninu sem er víst að ljúka, að geta ekki hlustað á Sigga pönk lesa úr pistlum sínum í ágúst, að heyra ekki í Næturverðinum...
Mér finnst lífið svo skrýtið því maður fyllist vonleysi og harmi á einni sekúndunni og svo á hinni næstu byrjar maður að plana kvöldmatinn og vorkenna sér yfir smáræði eins og skorti á RÚV sem maður hefur verið án í öll þessi ár í útlöndum.
Mér finnst lífið svo undarlegt. Næ ekki alveg að höndla það hver tilgangurinn er. Held bara ótrauð áfram og er reið og sár en um leið mjög hamingjusöm og meðvituð um eigin lán og lukku.
Ég er fordekraður og feitur Vesturlandabúi. Það er ekki beint mér að kenna. Ég er frekar svona góðhjörtuð og er á móti kapítalismanum og reyni að boða frið á jörð. Ég gef fátækum fyrir mat og brennivíni, stundum. Ég reyni að ala börnin mín upp í því að vera góð og kurteis og meðvituð um mikilvægi þess að vernda jörðina okkar.
Djöfull er ég leiðinleg maður! Ferlega er stutt á milli þess að vera almennileg manneskja og þess að vera lýðskrumari, demagó, óþolandi ánægð með sjálfa sig haldandi það að maður sé eitthvað gott afl fyrir heiminn. Auðvelt að benda á þá sem hafa fordóma, fordóma gagnvart dökku fólki, gagnvart trúarbrögðum sem það þekkir ekki, gagnvart þjóðfélagshópum, gagnvart minnimáttar. Auðvelt að þykjast vera laus við þetta, þykjast geta tekið allan heiminn í faðm sinn og því með afsökun fyrir því að lifa góðu lífi. Hafa alltaf val um hvað á að vera í kvöldmatinn. Vera jafnvel fúll yfir að hafa ekki efni á að panta alltaf pitsu, eins og það sé spurning um mannréttindi.
Vá, ég er svo týnd. Sorgmædd og glöð. Fegin og leið.

Lifið í friði.