Mugison, kórinn, tvíburarnir og aftakan.
Voðalegur bloggþurrkur einhvern veginn alls staðar. Og ekki get ég enn hlustað á útvarpið í skrýtnu tölvunni minni. Fór að skoða mýs í tölvubúð og ákvað að reyna að splæsa í nýja tölvu fljótlega. Verst að enn sem komið er fer sumarhýran í að fylla í holur og lifa af.Mugison sagði í lok tónleikanna að honum liði eins og bæði hann og gítarinn væru þunnir. Það er ekki hægt að segja að tónleikarnir hafi verið leiðinlegir, en ég er viss um að hann hefur verið betri. Hann var einhvern veginn stífur og feiminn þarna uppi á sviði.
Upphitunin var plötusnúður sem spilaði undir afar viðvaningslega teknum myndum frá Íslandi. Alltaf gaman að sjá íslensku náttúruna. Hún er skemmtileg þó að þessir drengir sem vinna á tónleikastaðnum træðu sér í forgrunn á flestar myndanna. Ekki laust við að þjóðarrembingurinn brytist örlítið fram í mér við þetta.
Mugison var klæddur eins og versti túristi, í síðum stuttbuxum með sokkana rúllaða niður og í leðurskóm, lokuðum. Mjög skemmtilega lummó. Hann talaði ensku og byrjaði á að afsaka það og lét alla rétta upp hönd sem skildu ensku. Flestir réttu upp hönd, þar á meðal ég. En svo skildi maður afskaplega lítið af því sem hann var að segja milli laga. Þar sem það voru yfirleitt einvhers konar brandarar og ögrun sem átti að hlæja að, féll það um sjálft sig. Við það stífnaði hann upp og fór úr gír. Ég mun ekki rjúka í Fnac eftir disknum hans, en ég mun glöð mæta aftur á tónleika með honum. Helst á Íslandi.
Franskir áhorfendur eru oft mjög erfiðir því þeir setja sig í gáfumannastellingar með sígarettu og bjórglas og horfa grafalvarlegir á sýninguna. Ég man hvað ég pirraði fólkið í kringum mig á Pixies tónleikunum 1990. Lét eins og vitleysingurinn sem ég varð þegar ég hlustaði á þá og þeir stóðu þarna með jónuna sína og fyrirlitu lætin í mér.
Um helgina er ég að fylgja fegursta hópi sem ég hef nokkrun tímann lóðsað um borgina. Kór Öldutúnsskóla. Sárabótaferð í stað áætlaðrar Kúbuferðar. Mjög sorglegt að vita að þær söfnuðu og voru búnar að greiða þá ferð upp í topp og að tryggingafélögin þurfa ekki að endurgreiða skilding því um MAJOR FORCE er að ræða. Það finnst mér ótrúlegur útúrsnúningur á hlutverki tryggingafélaga. Eiga þau ekki einmitt að vernda okkur fyrir hinu ófyrirsjáanlega?
Ég er að kynnast nýjum bloggurum betur því mínir helstu bloggvinir eru á þeytingi um allar jarðir og sinna blogglestrarþörf minni ekki neitt á meðan. Ég er mjög ánægð með tvíburana frægu úr MS sem ég gerðist svo frökk að þekkja ekki einhvern tímann snemma á bloggferli mínum. Kommentin um það hafa máðst út svo það er gleymt og nú get ég róleg dáðst að gáfum þeirra og samsinnt gagnrýni þeirra á skítaþjóðfélag okkar. Það sem mér finnst mest um vert er að a.m.k. annar þeirra tekur strætó. Jú, hinn tekur neðanjarðarlestina í útlöndum. Ég hélt það væru bara þroskaheftir og gamlingjar sem tækju strætó á Íslandi. Mig rámar reyndar í að eitthvað væri talað um að þeir væru undarlegir þegar þeir rústuðu spurningakeppnum um árið. Ég vildi að Ísland ætti meira af alvöru undarlegu og kláru fólki. Reyndar er nú slatti af slíku á blogginu.
Annars var grein á mbl.is um aftökuna á pakistanskt útlítandi drengnum með ógurlega bakpokann og þar var talað um jarðlestir. Það fannst mér undarlegt, þó það skipti vissulega afar litlu máli miðað við efni greinarinnar. Ég bið guð, allah og búdda að passa alla þá sem eru dekkri en Bush, Blair og ég. Ekki meira af svona viðurstyggð, takk.
Lifið í friði.
<< Home