24.2.05

reykingar og bönn

Ég er eiginlega í tilvistarkreppu varðandi þetta frumvarp framsóknarflokksins um að banna reykingar á veitingahúsum.
Ég reyki ekki lengur sjálf og er mjög ánægð með það. Ég er alltaf mjög fegin þegar ég kem á reyklaus veitingahús. Ég vona innilega að reykingar eigi eftir að minnka mikið og kannski jafnvel verða að engu einn góðan veðurdag.
En ég á marga vini sem reykja og ég þoli alveg að sitja í reyk, ólíkt sumum sem eiga virkilega erfitt með það. Og mér finnst svona alhliða bönn alltaf dálítið óþægileg.
Grein Hnakkusar um málið er mjög góð. Hann minnist á "afvegaleidda frelsispostula". Ég hef stundum haft áhyggjur af því að ógeð mitt á lögum og reglum og boðum og bönnum geti rakið ættir sínar til frelsishyggjunnar sem hægrisinnaðir boða. Þetta hefur mér þótt flókið og vont að hugsa um og hef því ekki gert mikið af því. Bægt því frá mér.
Væri ekki hægt að hvetja veitingahúsin til að verða reyklaus, án þess þó að banna stöðum að leyfa reykingar? Væri til dæmis ekki hægt að hafa sömu reglur um reykingaleyfi eins og um áfengisleyfi. Sækja þyrfti sérstaklega um slíkt leyfi, vera með mjög öfluga loftræstingu og greiða einhvers konar skatt vegna mengunarinnar sem af reykingum og loftræstikerfi hlýst. Æ, ég veit ekki.
Það er í raun og veru út í hött hvað fáir staðir eru reyklausir á Íslandi. Mín reynsla af Íslendingum er sú að þeir eru reyklausir, með örfáum undantekningum. Samkvæmt skýrslu Sivjar reykja um 8 prósent gestanna, minnir mig. Hvaða leppalúðagangur er þetta í veitingahúsaeigendum?
Ég man að veitingahús Sigga Hall á Hótel Óðinsvéum var reyklaus staður og samt yfirfullur af gestum þegar ég borðaði þar, fyrir nokkrum árum. Hvers vegna fylgja hinir ekki í kjölfarið? Þarf virkilega stóra RÍKIÐ að koma og BANNA til að þróun eigi sér stað? Er fólk ekki fært um að sjá að hlutirnir eru að breytast, fólk er farið að lifa heilbrigðara lífi, orðið meðvitaðra um krabbameinsvaldandi hluti og reynir að draga úr þeim efnum í kringum sig.
Það er reyndar ansi margt í okkar nútímalegu lifnaðarháttum sem mengar umhverfi okkar og gerir það verra. Ódýr húsgögn úr spónaplötum eru mjög mengandi, mörg efni sem við notum til þrifa, sjampó og aðrar hreinlætisvörur svo eitthvað sé nefnt. Þá vil ég enn og aftur benda á ofnotkun of stórra bíla í borginni. Það er krabbameinsvaldandi og umhverfinu hættulegt en einhverra hluta vegna vilja Íslendingar ekki hugsa mikið út í það. Ef okkur tekst að útrýma sígó, skyldi þá vera hægt að virkja Þorgrím Þráinsson í að útrýma stórum spúandi einkabílum?
Ef allir taka sér tak og reyna að menga eins lítið og hægt er, hafa virkilega fyrir því að breyta hlutum í lífi sínu þannig að minna fari af efnum út í náttúruna munum við kannski ná að kaupa okkur örlítið lengri tíma á jörðinni. Af hverju getum við ekki bara gert þetta sjálf? Af hverju þurfa stjórnmálamenn eilíft að hafa vitið fyrir okkur? Af hverju hættir fólk ekki að sækja reykstaðina og smátt og smátt munu þeir verða reyklausir staðir?

Lifið í friði.