27.2.05

ó, veður?

Fyrst yfirlýsing: Ég er algerlega sammála ryksjúgandi, syngjandi og prjónandi fótboltamanninum varðandi trúmál og börn. Sjá tengil í titli síðasta pistils.
Hér í Frakklandi hefur verið tekin alger trúleysisstefna hjá ríkinu til að koma í veg fyrir árekstra milli trúarhópa. Aðskilnaður ríkis og kirkju er í sjálfu sér alveg ágætur hlutur en það á samt ekki að leiða til þess að algerlega sé bannað að tala um trúmál á ákveðnum vettvangi. Mér leiðast þessir öfgar og finnst þeir oft draga athyglina frá mikilvægari málum. Til dæmis hefur ofurumræða um slæðubannið í menntaskólum dregið athyglina frá öðrum og stærri vandamálum stúlkna hér.

Hér hefur verið ískalt og snjóað við og við undanfarna daga. Þannig eru sums staðar örsmáir vísar að sköflum á gangstéttum í fáförnum götum hverfisins míns. Dóttir mín skoppar á milli þeirra, þetta eru kannski fimm sentimetra háar, 40 sentimetra langar og 20 sentimetra breiðar eyjur. Varla hægt að gera almennilegan snjóbolta úr þessu án þess að eyðileggja gersamlega "skaflinn". En það sindrar á götur og bíla á morgnana þegar sólin skín og ísköld golan bítur kinnarnar.
Þetta fárviðri hefur orðið til þess að búið er að loka öllum rólóum og görðum. Við vöfrum um göturnar með börnin okkar í fínu snjógöllunum og kuldaskónum sem keyptir voru á útsölu í Danmörku um áramótin en megum hvergi leika okkur. Frönsk börn sjást stundum á ferli, á leið út í búð eða í heimsókn til vina (það er vetrarfrí núna). Þau eru vitanlega ekki eins vel útbúin og hálfíslensku börnin mín, en það var sárt að sjá börnin hágrátandi við lögregluteipið sem hafði verið dregið utan um fína kastalann í garðinum í 10. hverfi sem við Agnes ætluðum í á föstudaginn. Það var hægt að komast inn í garðinn, en leiktækin voru sem sagt lokuð aðgangi, "fyrir öryggi barnanna". Í raun er ekki ætlast til að börnin séu úti. Þ.e.a.s. þessi vesalings börn sem fá ekki að fara í skíðafrí eins og megnið af fólki gerir hlýðið og gott í þessu vetrarfríi skólanna.

Alveg eins og mér finnst að allir Íslendingar eigi að búa a.m.k. eitt ár í útlöndum, finnst mér nú að allir Frakkar ættu að fara og búa eitt ár á Íslandi. Finna almennilega hvað VETUR er. Átta sig á því að það er ekki lengur ómögulegt að vera úti í kulda. Nútímatæknin hefur fært okkur gore-tex og flís og gamla góða ullin gerir einnig kraftaverk gegn kuldabola sem getur rétt svo nartað í kinnar á barni sem vel er klætt. Og hvað er fallegra en eldrauðar kinnar á hamingjusömu barni sem hoppar í snjó og rennir sér á svelli?

Ekki dettur borgaryfirvöldum í hug að fjárfesta í íslenskum kraftgöllum á garðverðina og láta þá skafa þennan litla snjó af tækjunum og bera sand á hálkublettina til að börnin geti notið útiveru í sól og stillufrosti. Nú væri tækifæri fyrir 66N að gera markaðsárás á frönsk yfirvöld. Eiga ekki allir að vera í útrás?

Lifið í friði.