vika á Íslandinu góða
Þá er maður kominn heim aftur, fyrirvaralaust, með kramið hjarta að venju, vegna allra þeirra sem maður saknar alltaf hérna úti, en nær svo ekki að hitta þó ekki væri nema í hálftíma meðan maður er staddur á skerinu.Afsökunin er tvíþætt að þessu sinni: Helv... pestin sem vill ekki fara og er um það bil að gera út af við geðheilsuna og stutt dvöl í þetta sinn.
Vika. Vika er eins og hálfur dagur var í gamla daga. Þess vegna nær húsmóðirin í dag ekki að sauma fötin á börnin, gera slátur, elda svikinn héra og aðra flókna rétti oft í viku, þrífa heimilið hátt og lágt reglulega, vera í saumaklúbb, kvenfélaginu og kór, heimsækja gamlar frænkur og frændur á elliheimilin víðs vegar um borgina, sjá um heimilisbókhaldið og og og... En svo segja sumir manni að þetta með tímann og hraðann hafi eitthvað með aldurinn að gera. Tíminn líður ekki hratt af því að nú er gervihnattaöld heldur af því maður er alltaf að eldast.
En þó hjarta mitt sé kramið af eftirsjá eftir að hafa ekki hitt marga, þá náði ég að gera eitt sem ég ætlaði mér að gera á Fróni núna. Ég gerði óvísindalega könnun á gæðum blaðanna tveggja sem koma heim til ma og pa, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Ég komst að þeirri niðurstöðu að blaðamennska á Íslandi er ömurleg. Mér finnst það gersamlega óþolandi hvernig blaðamenn misnota orð eins og hryðjuverk án þess að blikna. Orð og orðnotkun skiptir miklu máli og þegar menn eru að skrifa nútímasöguna í blöðin eiga þeir að vanda orðaval, fara varlega og leggja metnað sinn í að sýna rökhugsun. Andspyrnuhreyfingin í Palestínu er enn hryðjuverkasamtök eins og andpyrnuhreyfingin í Írak. Hvers vegna? Svarið er einfalt: Vegna þess að Rumsfeld segir það.
Ég nenni síðan ekki að ræða um allar "fréttirnar" sem fylla síðurnar og fjalla um að þriggja manna fyrirtæki í Síðumúla er lokað vegna flensu eða ær sem bera í febrúar. Þetta á kannski heima í héraðsfréttum og hverfisblöðum en ekki í fjölmiðlum sem eiga að bera okkur heimsfréttirnar. Megnið af erlendum fréttum eru þýddar og reiddar fram án nokkurrar íslenskrar viðbótar, án þess að blaðamaðurinn reyni á nokkurn hátt að koma með skýringar eða pælingar um það sem sagt er frá.
Á leiðinni út keypti ég hið arma blað Séð og heyrt. Ég biðst fyrirfram afsökunar, en ég gerði það til að gleðja eina vinkonu mína hérna sem elskar þetta blað og mér finnst fólk alveg mega elska svona blöð ef þeim sýnist svo. Ég hef reyndar aldrei gert þetta áður, en hún er alltaf svo glöð þegar hún fær þetta blað í hendurnar að ég ákvað núna að sýna þetta ótakmarkaða örlæti og gæsku. Blaðið las ég svo í flugvélinni þar sem dóttir mín ákvað að vera vakandi alla leiðina í þetta sinn. Ritstjórnarspjallið fjallar um það að með harðari samkeppni milli dagblaðanna á Íslandi, hafi blöðin orðið innhverfari og segi minna frá því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi. Merkilegt. Kannski rétt.
Annað sem ég komst að núna í þessari dvöl minni á Fróni er að mér finnst einhvers konar hræðsla í fólki. Mér finnst stórhugurinn sem landið byggðist á og sem hefur alltaf verið hluti af okkar sjálfsmynd hafa skroppið saman og sé að verða að engu. Loftið er farið úr blöðrunni. Við erum að vísu að fylgjast spennt með nokkrum stórlöxum í ÚTRÁS, en mér fannst ég heyra það of oft að íslenskur markaður væri svo lítill að hitt og þetta þýddi ekki. Líklega kemur þetta til af þessari frægu útrás okkar og allri þessari alheimsvæðingu. Við erum farin að miða okkur of mikið og of auðveldlega við stóru þjóðirnar og heimsmarkaðinn og erum því að missa trú á okkar litla fína markaði heima. Ég auglýsi hér með aftur eftir stórhuga Íslendingum.
Annars var ég mest að njóta sundlauganna (í óþökk flestra þar sem ég hóstaði og snýtti mér út í eitt allan tímann - sundlaugarnar eru bara of góðar til að sleppa þeim) og að vera með fjölskyldunni. Karlarnir tveir á íslenska heimilinu hjálpuðu mér við vefsíðugerð og verður afraksturinn auglýstur fljótlega.
Ég er ánægð með dvölina heima og snjóinn en alltaf jafn óánægð með matvörubúðirnar, lélegt úrval ferskvöru, verð og verðmerkingar. Sumt virðist ekki eiga að breytast.
Ég er ánægð með að vera komin heim aftur og saknaði karlanna minna hér alveg ógurlega mikið. Og mikið er gaman að koma aftur í bloggheiminn. Hlakka til að kíkja á vini mína og sjá hvað hefur á daga þeirra drifið í fjarveru minni. Ekki það að það séu ekki 5 eða 6 tölvur heima hjá ma og pa. Bara tveir skjáir og tíminn við tryllitækin fór allur í vefsíðugerð. Ekkert blogghangs neitt!
Lifið í friði.
<< Home