5.2.05

upprisa

Jæja, þá er maður risinn úr rekkju á ný eftir þá verstu flensu sem maður hefur nokkrun tímann fengið. Kvalafull, uppköst, hósti og hár hiti. Oj barasta. Enn smá hiti, en líðanin mun skárri. Mér skilst að megnið af Frakklandi liggi og það sama sé uppi á teningnum á Íslandi. Dálítið óhugnalegt að sjá hversu hratt og auðveldlega svona ósómi breiðist út. Hér er alltaf fylgst mjög vel með þessu, fyrst sér maður kort af Frakklandi í fréttunum þar sem rauði bletturinn er aðallega yfir Alsace og Norðurhéruðunum, og svo sér maður í gegnum vikuna hvernig rauði bletturinn stækkar og stráfellir íbúana.
Annars veit ég svo sem ekkert hvað ég á að rausa um, langaði bara svo að taka upp þráðinn aftur eftir langt hlé. Á ég að tala um hershöfðingjann sem sagði að það væri svo gaman að kála þessum aröbum sem hafa lamið konur? Eða viðbrögð Rumsfeld, sem er eiginlega blaðafulltrúi heimsins vegna þess að svo margar fréttastofur eru hættar að senda blaðamenn út af gislatökum, sem sagðist ekkert geta sagt þar sem hann hefði ekki lesið þetta? Á ég að tala um Bush sem lét móður látins hermanns fallast í faðma við Íraska konu sem kaus? Bíddu, er þetta allt í einu orðin kvenréttindabarátta? Er Bush femínisti?
Femínisti. Af hverju er fólk hrætt við orðið? Sumir virðast setja það í sama flokk og rasisti. Að það að vera femínisti, þýði að maður vilji algert kvenvald, karlarnir geti étið það sem úti frýs. Eigi varla tilverurétt. Sem er alls ekki minn skilningur á femínisma. Ég skil femínisma sem jafnréttisbaráttu, að allir séu jafnir. Að konur fái sjálfkrafa sömu laun og karlar fyrir sömu störf, að álíka hlutfall karla og kvenna sé í háum stöðum þjóðfélagsins. Æ, ég nenni samt ekki að tala um þetta. Ég finn fyrir svona vonleysislegri þreytu þegar ég þarf að minna mig á að konur eru enn lægra settar en karlar í vestrænu þjóðfélagi. Að konur eru lamdar, þeim er nauðgað, þær fá lægri laun. Svona eins og vinur minn homminn sem yppti öxlum og sagðist ekki nenna að ræða þetta,honum fyndist svo fáránlegt að fólk væri enn að efast um réttindi homma og lesbía til að geta gift sig (sem er nauðsynlegt í okkar "nútíma"þjóðfélagi til að tryggja erfðarétt o.fl.).
Við erum alltaf að reyna að sannfæra okkur um að líf okkar sé svo framúrstefnulegt og miði að velferð allra. Málið er að velferðin er bara fárra, við eigum bara svo auðvelt með að loka augunum og þykjast ekki sjá allt hitt.
Ni putes, ni soumises (Ekki hórur, ekki undirgefnar) eru samtök sem voru stofnuð í úthverfum Parísar af nokkrum konum og körlum í kjölfarið á hrottalegu morði í einu af þessum hræðilegu blokkarhverfum sem eru hér sums staðar í útjaðri borgarinnar. Sohane, stúlka um tvítugt var tekin og brennd lifandi af nokkrum strákum sem voru að refsa henni fyrir að hafa staðið í hárinu á þeim, hafa vogað sér að neita að gangast undir þeirra lög og reglur í hverfinu. Ég man alltaf hvernig talað var um Breiðholtið í fréttum í gamla daga, og ég man að ég var dálítið hrædd við stráka eins og Tussus, en það voru ekki hópnauðganir, alvarlegar barsmíðar og hvað þá morð eins og gerist stundum hér.
Systir Sohane og fleira fólk kom hreyfingunni af stað. Hún var fljótt og örugglega tekin upp á arma pólitíkusanna, Sósíalistar eigna sér hreyfinguna dálítið, styrkja hana vel og hafa komið henni upp á landsmælikvarða, nú eru útibú um allt Frakkland.
Þarna er barist fyrir rétti stúlkna til að klæða sig eins og þær vilja og gera það sem þær vilja. Mjög þarft starf sem þarna er unnið og hefur vakið upp umræðu og velt upp flötum sem ekki allir gerðu sér grein fyrir áður. En spáiði í það að í dag, 2005, skuli þetta þurfa að vera baráttumálið. Að stelpur megi vera í pilsi og það geri þær ekki að hórum. Það er þessi afturför nútímaþjóðfélagsins sem mér finnst óhuggulegust og gerir mig svo þreytta.

En nú er ég búin að fá nóg. Er enn frekar máttfarin greinilega. Maður verður að vera orðinn hress fyrir mánudag,en þá ætla ég að taka æslandervél heim á Frón.

Lifið í friði.