6.2.05

Heilsan er ekki komin í lag, hitastigið rauk upp seinni partinn í gær og ég er enn slöpp í dag. Er þó eiginlega alveg viss um að ég sé hitalaus.
En þar sem horið er allar holur að fylla, átti ég mjög erfitt með svefn í nótt. Vakti frá 3 til 7 í morgun. Alltaf auðveldara að sofna þegar börnin byrja að rumska.
Ég fór að flakka um netheima, las fullt af greinum á Múrnum, nokkur blogg, fullt af ljóðum á ljóð.is ásamt umsögnum um ljóðabækur. Ég lagði ekki í að blogga því ég vildi ekki vekja neinn með slætti á lyklaborð. Klikkaði mig bara áfram í gegnum áhugaverða hluti með músinni hljóðlátu.
Svo fór ég inn í rúm og lauk við Andlit eftir Bjarna Bjarnason sem ég var að lesa í annað sinn og reyndist bókin standast allar minningar og vel það. Frábær bók sem ég hvet alla til að lesa. Yndislegar sögur í henni um fólk sem við þekkjum og fólk sem við þekkjum ekki neitt. Fín lýsing á því hvernig maður verður neðanjarðarskáld án þess að átta sig alveg á því. Engin tilgerð. Engin plön um það að vera á skjön. Allt í einu áttar hann sig bara á því að í staðinn fyrir að sitja með fögrum fljóðum á kaffihúsi Þjóðarbókhlöðunnar, situr hann alltaf með mesta sérvitringnum, þessum skrýtnasta. Er hann þá einn af þeim?
Enn og aftur: Lesið þessa bók.

En nú verð ég að hætta, herskarinn kominn heim úr labbitúr og allir þreyttir og pabbinn skipar mér að koma og hjálpa. Veikindafríið greinilega búið! Ég hefði átt að barma mér aðeins meira í morgun...

Lifið í friði.