19.10.04

Kári fnæsir

Ég er búin að finna nokkrar ástæður fyrir offituvandamáli Íslendinga:
1. Sundlaugar. Paradís á jörðu og það EINA sem mig langar að flytja með mér út, fyrir utan náttúrulega allt fólkið sem mætti koma þangað, en maður er hrikalega svangur þegar maður kemur upp úr, þó maður fari bara í heita pottinn og liggi þar eins og skata. Deffínettlí fitandi.
2. Veðurfarið. Maður leggst í tröstespisen (hughreystingarát fyrir þá sem eru ekki á norrænu línunni) þegar vindurinn blæs, snjór fýkur um göturnar og svo kalt að manni langar að öskra af sársauka þegar maður opnar fyrir gestum. Fitandi.
3. Veðurfarið II. Ekki smuga að ganga út í sjoppu eftir meira tröstespisen. Maður bara verður að fara á bílnum, þó sjoppan sé í næstu götu. Fitandi.
4. Lambakjötið. Það er SVOOOO gott, sérstaklega þetta stökka brúna ofan á. Fitandi.
5. Kókosbollur. Reyndar ekki búin að borða neina núna, þar sem ég borða þær eingöngu í laumi, og hef ekki fengið mínútu fyrir sjálfa mig hérna núna. Deffínettlí fitandi.

Annars líður mér nokkuð vel hérna, það er svo gaman að lesa blöðin, hló mig hása að auglýsingu frá Rekstrarvörum í Fréttablaðinu í morgun, fögur blondína í hvílíkum ræstitæknigalla að James Bond myndi roðna. Fullt af vösum fyrir bursta og svampa og alles. Hvílík gella mar!

Svo er ég að læra unglingamál af bróður mínum, en það getur verið varasamt. Hann hringdi um daginn og sagðist vera "á lafinu". Ég var mjög ánægð með að læra þetta nýja unglingaorð sem ég taldi vera komið af því að hanga sem hefði orðið að lafa sem hefði orðið lafið. En hann var víst bara Á LANINU, sem er fullt af tölvum tengdar saman svo tölvunördar geti drepið hvorn annan í æsispennandi leik.
Nóg í bili. Farin í sund.

Lifið í friði.