14.10.04

Ástkær fósturjörð

Nú hefur liðið lengri þagnartími en nokkru sinni fyrr, síðan ég byrjaði á þessu bloggstandi. Ýmsar ástæður eru fyrir því og ein þeirra er sú að eftir nokkra klukkutíma á Íslandi er maður kominn með valkvíða yfir því hvað maður á að ræða í næsta pistli, svo mikið liggur manni á hjarta.
Efst á Baugi, æ, afsakið, hlýtur að stafa af oflestri Morgunblaðsins, efst á baugi er vissulega sú staðreynd að meðan stór þjóðfélagshópur, viðkvæmur og dýrmætur og alls ekki sjálfbjarga, gengur sjálfala um götur borgarinnar og akra sveitanna, getur ráðherra látið hafa það eftir sér að það komi ríkisstjórninni ekki við. Það komu viðbrögð frá einhverjum fulltrúa Kennarasambandsins sem krafðist réttilega að menntamálaráðuneytið yrði þá lagt niður, en ekki heyrist margt frá foreldrum, yfirmönnum þeirra, ömmum sem standa á kafi í björgunarstörfum, öfum sem hafa ekki heyrt fréttir í tæpar fjórar vikur, eða öðrum fullorðnum sem þetta verkfall kennara bitnar á. Mér finnst að ríkisstjórnin öll eigi að segja af sér fyrir svona ummæli, ef ekki þá einfaldlega fyrir þá staðreynd að þetta verkfall hafi skollið á og standi svona lengi. Til hvers er ríkisstjórn í landinu? Svo sitja þeir uppi á þingi og mala um fjölmiðlafrumprump því auðvitað er þar um hákapítalískt vandamál að ræða, þar eru beinharðir peningar (og þá um leið völd) í húfi og auðvitað mun mikilvægara en þessi margumtalaði "þjóðarauður" sem felst í börnum okkar. Ráðamenn hafa ekki mikinn áhuga á slíkum auði, enda hefur aldrei verið hægt að stofna hlutafélag um íslenskt barn, eða selja eignaréttinn á því.

Í huga mínum hljómar stöðugt síðan ég kom heim, lag eftir snillinginn Roger Waters:

Can't you see?
It all makes perfect sens.
Expressed in dollars and cents,
pounds, shillings and yens.
Can't you see?
It all makes perfect sens.

Æ, vitið þið hvað? Ég er svo þreytt, að ég get varla hugsað meira um þetta. Ég vil bara koma því á framfæri að Frakkar trúa mér ekki þegar ég segi þeim að allt skólastarf liggi niður á Íslandi, og að það hafi gert það í tæpar fjórar vikur. Þetta væri ekki hægt í neinu siðmenntuðu landi sem ég þekki til í. Það væru a.m.k. allir gersamlega eyðilagðir og með allan hugann við að laga ástandið. Forsætisráðherra sæti fundi með deiluaðilum, forsetinn líka, menntamálaráðherra færi ekki heim til sín á kvöldin, foreldrar væru með setuverkföll og aðrar aðgerðir út um allan bæ.
Hér gengur maður um og einu merki verkfallsins eru öll þessi börn út um allt. Ikea var eins og stríðsvöllur síðasta mánudagsmorgun. Krakkar hoppandi um alla búð, rífandi og tætandi. Það er mál flestra foreldra sem ég hef heyrt í, að mikið eirðarleysi sé komið í þau. Fyrstu vikurnar voru þau ánægð með tilbreytinguna og áköf að leika sér og hafa ofan af fyrir sér, en nú vilji þau bara regluna aftur. Enda eru börn hamingjusömust þegar lífið er í reglu.
En verkfallið nær ekki einu sinni forsíðum blaðanna á hverjum degi. Fjölmiðlafrumprumpsmálið náði því nú ALLAN maímánuð sl. og er þar oft enn. Krakkar eru ekki með kosningarétt. Krakkar eru erfiðir og oft hrikalega leiðinlegir. Krakkarnir geta bara átt sig.
Ég játa það að ég kom of seint heim til að sjá greinar um kröfur kennaranna, og hef ekki leitað eftir því að kynna mér þær. Skil reyndar alls ekki neinar kröfur í þessu þjóðfélagi, svo ég myndi líklega ekki græða mikið á því að kynna mér kröfur kennara. Mín krafa er sú, að Ísland leggi sig fram um að vera með gott skólakerfi og mannsæmandi laun fyrir alla. Hins vegar er ég ekki viss um að minn skilningur á mannsæmandi launum sé sá sami og annarra hér á landi... gefst upp... ætla að leggja mig...
Lifið í friði.