4.8.05

Grein sem bætir hressir og kætir

Fyrirsögnin er tengill í afar fína grein á kistunni. Eiginlega leið mér eins og ég hefði farið í hressandi sturtu eftir lesturinn. Og hætti snarlega að velta mér upp úr þeim ósóma að ég hefði bara eitt skitið BA. Ég sem hefði getað orðið læknir eins og pabbi segir alltaf...

Og gott að sjá að bloggið dó ekki drottni sínum þó ég skryppi frá. Gaman að koma heim og smella kossi á kinn karlsins og leggjast svo í tölvuráp í marga klukkutíma. Reyndar er ég bara búin að lesa örfáa, á allt of mikið eftir.

En mig óar samt ennþá við tilhugsuna um að 1279 manns lesi mig. Ef ég geri ráð fyrir því að allir hafi kíkt á myndirnar utan þögla lesandann sem mælti. Annars kannski fleiri? Eða þá að einhver varð svo hrifin af myndunum að hún skoðaði þær mjög, MJÖG oft? Eða þá að villupúki kom upp hjá webshots? Svar mun ekki fást og því mun ég ekki fást meira við spurninguna.

Sveitin var dásamleg, styrkti löngun mína til að flytja úr borginni. Þar á ofan rauk ég beint í vinnu í gær og lenti í hvílíkum dónaskap bæði hjá þjóni og stúlku í lestarmiðasölunni með hópnum mínum að ég mun líklega verða að endurskoða fullyrðingar mínar um að París sé orðin ferðamannavæn. En þetta má ég kannski ekki viðra of mikið á netinu þar sem mín eina litla tekjulind byggir á því að narra fólk til Parísar. Eiginlega eins og að hrækja í súpuna sína.
Sveitin er samt dásamleg. Veðrið var með undarlegra móti, hélst yfirleitt þurrt en var stundum hálfsvalt vegna vindanna sem blésu og lítil sól. Við Kári sváfum í tjaldi og það er frábært. Tjaldið keypti ég á útsölu í janúar síðastliðnum og ég fékk nú nett taugaáfall þegar ég fór að rúlla því í sundur. Það er risastórt og hægt að standa uppréttur inni í miðjunni sem rúmar borðsalinn og svo eru tvö rúmgóð herbergi sitt hvorum megin við hann. Til allrar guðslukku var ég með tvær tjaldvanar konur með mér, hugsanlega hefði orðið hjónabandsvandamál ef við hjónin hefðum staðið þreytt á almenningstjaldstæði með öskrandi börn og þessa ógurlegu þraut á milli okkar. En nú er ég búin að stúdera þetta og gerði nokkrar lærdómsríkar villur svo ég ætti að geta komið þessari höll upp sjálf næst. En við þurfum líklega að greiða fyrir tvö tjöld á tjaldstæðum hér.

Það verður ekkert af myndum úr þessari ferð því batteríið varð eftir í hleðslu hér heima. Ekki orð um það meir.
Fórum á sveitaflóamarkað og keyptum fullt af húsgögnum fyrir engan pening. Lentum í miklu basli við að koma þeim inn í bílinn ofan á drengina í barnastólum og þeir áttu erfiða bílferð heim sem og við frammí. En Kári getur sjálfum sér um kennt með skipalakkið í hárinu sínu. Hann þurfti ekkert að vera að reyna að troða sér í fangið á mér sí og æ. Allt of mikill mömmustrákur, sérstaklega þegar mamman er að gera eitthvað. Ef maður situr og starir út í loftið hefur hann engan áhuga á manni. Ef maður tekur upp símann, pensil, skrúfjárn, prjóna eða eitthvað áhald sem notað er til að gera annað en að hugsa um hann verður hann viðþolslaus af knúsþörf. Dularfull þessi börn.

Sólrún pólrún skítarólrún kemur frá Grikklandi í nótt. En við fáum ekki að sjá hana fyrr en á morgun. Ég hlakka svo til að mig verkjar í hjartað. Hún segist ekki vilja koma heim. Hm. Skil hana of vel til að ergja mig á því.

Lifið í friði.