Aftur og nýbúin
Aftur til Versala í dag. Skárra að hafa einn dag á milli, einhvern tímann í júní gerðist það að ég fór tvo daga í röð. Það var þrekvirki. Kannski er það ekki alveg eðlilegt hvað ég er þreytt eftir þessar ferðir til Loðvíks og Maríu (þeir voru þrír, þær voru þrjár). Í fyrradag gat ég varla borðað kvöldmat, mér var hálfóglatt af þreytu og sofnaði í sófanum korter yfir níu. Þetta er um 10 km ganga og vitanlega tala ég svo til allan tímann. Ég ek af stað héðan um níuleytið, kom síðast heim rétt fyrir átta. Þetta eru því langir dagar og stressandi.En kannski er þetta tengt einhverjum hryllilegum sjúkdómi sem blundar í mér. Kannski eru öll þessi einkenni sem ég hef (þreyta, verkstol, illt í hælnum (nýtt síðan í fyrradag), suð í eyrum, vöðvabólga, höfuðverkir (betra eftir 2 osteóferðir) tengd saman. Já, ég var líklega ekki búin að segja ykkur það, ég er að horfa á Dr. House þessa dagana.
Lifið í friði.
<< Home