sunnudagur, sól og hiti
Það er frekar fúlt að taka blogglestrarpásu reglulega á sunnudögum. Fara allir út úr bænum eða er málið að fólk bloggar almennt í vinnunni?Ég get svo sem ekki kvartað, hef nóg lestrarefni og úða í mig greinum um beygingarendingar og breytingar á sagnbeygingum. Ég skil ekki bofs í þessu, hef enn ekki almennilega náð tökum á því hver munurinn á hljóðfræði og hljóðkerfisfræði er, þó ég hafi skrifað hann 100 sinnum niður, og átta mig illa á því hvenær reglur eru beygingarreglur og hvenær hljóðkerfisreglur. Mér er illt í málfræðikunnáttu minni.
Í tilefni af því að einn greinarhöfunda notaði orðið líka í útlistunum sínum fór ég að hugsa til Jóns Gúmm sem barði það svo illilega í mig að nota einnig og aldrei líka að ég hrekk alltaf við þegar ég sé það í ritmáli. Ég skrifa það stundum sjálf og þarf oft að pína mig til að breyta því ekki í einnig, því ekki vil ég vera uppskrúfuð, nógu leiðinleg er ég nú samt.
Í framhaldi af hugsunum mínum um hann Jón, gúgglaði ég honum í fyrsta skipti á ævinni og komst að því að hann dó núna í apríl. Það fannst mér dálítið undarlegt, sérstaklega þar sem ég held að við höfum rætt um hann um daginn, ég og MR-ingurinn sem var hér í heimsókn.
Í gönguferðum mínum um Latínuhverfið geng ég framhjá húsinu sem ég bjó í þegar ég var au-pair. Ég hafði farið túrinn oft og mörgum sinnum, stundum bendi ég á húsið, stundum erum við svo mikið að tala um eitthvað annað að það gleymist. En eitt skiptið benti ég ekki bara á það heldur sagði hugsunarlaust að gaman væri að vita hvort kerlingin sem átti herbergið væri enn á lífi. Sama kvöld frétti ég að hún var grafin þann dag. Tilviljun að ég hugsaði til hennar? Já, líklega, en samt undarleg tilviljun. Ég fíla undarlegar tilviljanir. Jón Gúmm hefði strikað með rauðu yfir sögnina að fíla. Hann hefði líka strikað út sögnina að elska í þessu samhengi. Ég á alltaf erfitt með að yrða það sem ég fíla, mér þykir vænt um, mér þykir gott. Ég er nefninlega sammála hreintungustefnufólki um að sögnin að fíla er ljót og að það er asnalegt að segja að maður elski eitthvað þegar manni þykir það bara gott eða skemmtilegt. Undarlegar tilviljanir eru skemmtilegar. Þetta er betra.
Röddin er svo til alveg farin, þegar ég reyni að tala kemur annað hvort þvagmælt önghljóð eða ískur. Því þegi ég. Er ekki stutt síðan ég missti röddina síðast? Það var áreiðanlega núna í vetur.
í morgun vaknaði ég líka með dúndrandi höfuðverk sem fór ekki fyrr en ég tók mígrenilyf um hálftólf. Þannig að ég er bæði daufleg og raddlaus. Sem betur fer er ég ein heima. Og sem betur fer er þetta lestrardagur en ekki vinnudagur.
Það fæddust tvíburar í fjölskylduna okkar í gær. Tveir strákar. Ég veit ekki hvort þeir voru teknir með keisara, né hvað þeir eru stórir, né hvar þeir eru staddir eða hvenær ég má koma að sjá. Það er glatað að láta karlmenn taka við svona símtölum. Hvernig stendur á því að þeir spyrja ekki að neinu, bara nei frábært, til hamingju, heyrumst, bless.
Lifið í friði.
<< Home