heilsa
Ég fór til taugalæknis í janúar eins og lesendur muna. Síðan þá hef ég nokkrum sinnum tekið Naproxen ef mér hefur fundist ég vera að stífna upp í öxlum. Hef gefið a.m.k. eina töflu og á eina eða tvær eftir úr tíu töflu pakka. Ég fæ mér íbúprófen ansi oft, líklega einu sinni til tvisvar í viku. En mígrenilyfið hef ég bara þurft að taka einu sinni allan þennan tíma. Það fór ágætlega, kastið gekk strax niður og aukaverkanir voru einhvers konar verkur/doði í handleggjum daginn eftir. Dálítið óþægilegt en vel þess virði.Ég hef ekki mikið dálæti á læknum, þ.e.a.s. að fara sjálf til læknis. Ég þjáist í raun af ofsahræðslu gagnvart læknisheimsóknum sem var mjög greinileg þegar ég var barn, ég trylltist þegar ég sá fólk í hvítum kápum eða frökkum úti á götu. Mamma á hræðilegar minningar um lækna sem hlaupa á eftir mér í kringum skrifborðið, ég á hræðilegar minningar um blóðtökur og annað slíkt, sérstaklega leið mér illa þegar tekið var blóð úr systur minni sem skipti ekki svip á meðan.
Ég held að ef ég fari reglulega til taugalæknis geti ég í raun haldið mígreninu niðri. Eða, eins og ég geri núna, að ég telji mér trú um að ég þurfi að fara reglulega.
12 ára gömul læknaði ég sjálfa mig af bráðri botlangabólgu einfaldlega vegna þess að ég vildi ekki láta skera mig upp. Ég var í sveitinni, læknir kom og skoðaði mig þar sem ég lá í óráði með yfir 40 stiga hita. Hann pantaði sjúkrabíl og sagði að ég þyrfti uppskurð strax. Mér krossbrá þarna úr óráðinu og á leiðinni í sjúkrabílnum horfði ég á fjöllinn út á milli hvítu línanna á glugga bílsins og fann hvernig hitinn rjátlaði af mér og verkurinn hvarf. Þegar við renndum inn í kjallarann við Landspítalann hrópaði ég á lækninn sem tók á móti mér að það þyrfti ekkert að skera mig, það væri allt í lagi núna. Ég var látin dúsa alheilbrigð á spítala í 4 daga því skýrsla sveitalæknisins olli þeim miklum áhyggjum. En ég er enn með botlangann í mér.
Auðvitað hef ég þurft að leggjast undir hníf einu sinni og gat ekki læknað sjálf það sem hafði gerst, en þá brenndi ég mig illilega á fæti. Ég tel mig ekki vera kraftaverkamanneskju, en ég er þó nokkuð á því að hræðsla mín við lækna heldur að vissu leyti í mér heilsunni.
Lifið í friði.
<< Home