11.4.08

líf og markmið

Ég er á lífi en gæti líklega sagt að ég á mér ekkert líf. Ég náði góðum hálftíma með börnunum í gær, baðaði þau og "bjó til" mat (les: sauð pasta). Las fyrir þau sögu og sofnaði á svipuðum tíma og þau. Vaknaði svo reyndar aftur og kláraði heimaverkefni og skilaði, varð að fórna einu slíku þessa vikuna, get ekki kennt neinum nema sjálfri mér um það.

En það er gaman í vinnunni, hópurinn er góður og gaman að fræðast um franskt menntakerfi með fólki sem kann að spyrja réttu spurninganna. Nú get ég t.d. nefnt dæmi um kennaralaun þegar fólk byrjar að spyrja mig spjörunum úr um launamál hérna.

Ég er líka búin að finna draumamenntaskóla fyrir börnin mín og draumaeinbýlishúsið á næsta horni við hann. Það gæti kostað um 2.000.000.000 evrur, plús mínus þrjú núll. Ef það er mínus þrjú núll er ég ekki að ýkja.
Gegnt húsinu eru svo seldir Rolls Royce, Ferrari og Lotus (sem er líka bílar, lærði ég í gær). Mjög hentugt allt saman.

Hver var að tala um markmið og að sjá sig fyrir sér eftir 10 ár? Nú get ég það loksins.

Lifið í friði.