14.4.08

hökt og haki

Ég hef hökt í gegnum þennan dag.

Fyrst hökti ég með börnin í skólann, með hárið út í loftið og stíf í öllum útlimum.

Svo hökti ég út með gestinum sem verður hjá okkur í 10 daga að undirbúa sig undir skylmingamót þar sem skorið verður úr því hvort hún nær inn á Ólympíuleikana. Mjög spennandi og ég gef henni vel að borða og hlúi að henni og verður það minn skerfur til styrktar þátttöku Íslands í þessu umdeilda alþjóðlega móti sem á að tákna frið og bræðralag. Ég hökti á eftir henni þar sem hún stökk eins og hind um göngustígana í garðinum.

Svo hökti ég andlega í gegnum umsókn sem ég sendi í kvöld. Fresturinn var lengdur um mánuð og fyrir nákvæmlega mánuði var ég að stressast með þessa sömu umsókn á síðustu stundu. Ég sagði í gríni við ritarann sem færði mér fréttirnar að þá myndi ég bara leggja þessu og bíða í mánuð. Ég hélt í alvörunni að það væri grín. En það er reyndar ekkert grín að vera svona óviss þegar gerð er stór umsókn. Ég hef hugsað heilan helling um þetta en ekki fengið af mér að klára að fylla allt út og senda gögnin.

Allt annað sem ég ætlaði að gera í dag sat á hakanum. Ég náði ekki einu sinni að leggja mig þó ég væri svo þreytt að ég drafaði allan eftirmiðdaginn.

En ég sé á eftir góðum hóp og vel lukkaðri ferð sem ég get, að ég held, verið nokkuð montin af. Skýrsla um launamál og annað kemur síðar. Ég ætla snemma í háttinn í kvöld og mun stökkva eins og hind í gegnum morgundaginn.

Lifið í friði.