22.4.08

gott veður

Það er gott veður úti. Fulgarnir syngja, sólin skín. En ég er inni, þæg og góð, ljúf og kurteis, ábyrgðafull og prúð að læra. Eiginlega er ég komin á það stig að ég hlakka til að prófdagur hefjist, þá er styttra í að prófi sé lokið. Það hlýtur að vera gott stig, er það ekki?
Það eru tvær vikur þangað til. Ég væri ekki nándar nærri eins hörð í lærdómnum núna ef ég vissi ekki að síðustu dagana fyrir fyrra prófið verð ég að vinna töluvert.

Ég heyrði í sjálfri mér á Bylgjunni í gær. Jámm (það er stílbrigði að því að bæta þessu varamælta raddaða nefhljóði í hala orðsins, trúið mér).

Í morgun var rætt um orð yfir það að fara út að skemmta sér því skylmingakonan kemur frá Istanbúl á mánudag og við ákváðum að þá ætlum við að setjast út á terrössu og drekka hvítvín, hvernig sem leikar fara hjá henni á laugardaginn - við erum báðar frekar svekktar yfir því að vera ekki að fara að gera það í dag, fyrsta alvöru góða dag vorsins, og erum sannfærðar um að það verði svona gott veður á mánudaginn líka. En ég ætlaði að spyrja um skemmtilegheit:
Þegar ég var lítil, fóru mamma og pabbi (eða var það amma?) í gilli og við systurnar máttum ekki koma með. Ég fór töluvert á djammið en fannst einhvern veginn eins og fólk á aldri skylmingakonunnar hefði farið á tjúttið, alla vega man ég eftir þessu orðalagi frá yngra fólki. Hún kannast hins vegar ekki við að hafa nokkru sinni tjúttað og finnst það ógurlega gamaldags. Ég er fædd 1969, hún 1976. Var einhver örstutt bylgja tjútts þarna inn á milli eða er þetta ímyndun í mér?

Lifið í friði.