skýrsla - varúð tóm leiðindi
Síða nöfnu minnar er horfin. Það finnst mér undarlegt og vona að þetta sé bara tímabundið. Tóta pönk hvarf líka fyrir nokkru en hún er svo mikill sveimhugi að ég hef minni áhyggjur af því, ég treysti því að hún komi til baka þegar hana langar.Mig hefur oft langað til að smella á eyðingarhnappinn en held alltaf í mér. Ég hef oft pælt í því að hætta en veit að mig langar það samt ekki.
Hér er mest af bla bla ble ble tepokabloggum en þetta er samskiptaleið. Ég blogga t.d. mun minna núna þar sem ég er með íslenska vinkonu heima hjá mér alla daga. Hún fær þvaðrið yfir sig greyið, þið getið þakkað henni pent.
Á laugardaginn fór ég í gönguferð með slatta af fólki og talaði svo við Bylgjumenn. Á eftir hitti ég unga stúlku sem ég tók með mér upp í Vísindasafn. Meðan við biðum eftir börnunum mínum sem voru í kúlubíóinu, spurði ég hana spjörunum úr um það hvernig er að vera unglingur á Íslandi í dag. Ég hitti afskaplega sjaldan unglinga.
Vísindasafnið er troðfullt af efni, það vantar ekki, en það þarf að setjast við skjái og hlusta í 5-10 mínútur á umfjöllun um hvert efni. Frekar leiðinlegt og vonlaust með lítil börn. Get því ómögulega mælt með þessu safni. Það var alveg gaman að sjá tímabundnu sýninguna á gömlu Citroën bílunum, standa undir alvöru herflugvél og nokkur skemmtileg dæmi um þyngdarleysi í geimferðum. Mest var þetta óaðgengilegt og þurrt.
Garðurinn er miklu skemmtilegri og svæðið fyrir 4-12 ára börnin er náttúrulega mjög skemmtilegt. Við dauðsáum eftir að fara ekki þangað með börnin.
í lok dagsins kom svo móðir unglingsins sem bloggar stundum. Þær komu svo heim í mat og var það ekki leiðinlegt.
Á föstudeginum fór ég á stefnumót við, ekki dauðann, heldur þennan mann. Við ræddum túristabransann, neytendamál, bóksölu á Íslandi o.fl. Alltaf gaman að kynnast nýju fólki. Það var undarleg tilviljun að ein hjónin sem komu í gönguferð á laugardeginum höfðu fundið mig í gegnum síðuna hans. Ég hafði aldrei heyrt um hann fyrr en á fimmtudeginum á undan þegar hann sendi mér tölvupóst og við mæltum okkur mót.
Lífið er skemmtilegt en nú þarf ég að bretta upp ermarnar og hljóðfræðast og orðmyndast.
Lifið í friði.
<< Home