17.4.08

Ég er á lífi og á mér líf, því miður kannski. Betra væri líklega að engin utanaðkomandi truflun væri til staðar, að ég væri alein einhvers staðar í litlu herbergi búnu helstu nauðsynjum og engu umfram það með bækurnar Íslensk tunga, nokkra vel yddaða blýanta og stílabækur hjá mér.

Próf, próf, próf þetta sönglar í hausnum á mér undir fallegu tíðnihljóðinu sem er orðið órjúfanlegur hluti af sjálfi mínu.

En dömunni berast bréf með beiðnum um gönguferðir, hótelpantanir og fleira, það þarf að ganga frá lausum endum og auðvitað muna eftir að fara með börnin til tannlæknis og gefa þeim að borða.

Stór ákvörðun var tekin um daginn og gengið frá MA-umsókn. Ég bíð svars og út frá því þarf að taka enn fleiri stórar ákvarðanir. Sem varða ekki eingöngu sjálfa mig en aðalinnihaldið er:

Hvað ætlar þú að verða væna þegar þú ert orðin stór?

Ég sef illa, bólur eru byrjaðar að spretta á ný eftir smá hlé og mig klæjar í hársvörðinn og það snjóar úr honum. Veðrið er undarlegt, kalt og hlýtt til skiptis, stundum á sömu mínútunni. Skylmingastúlkan er dugleg og ég hef fulla trú á að hún verði í sjónvarpinu í sumar og ég með vasaklút að horfa á. Blómin vaxa og dafna, fuglarnir syngja (les: garga), kettir breima. Það er vor. Það er gull.

Mér barst bók í pósti frá lesanda þessarar síðu. Ég klikkaði alveg á að sníkja bók af Ármanni, en ætla að kaupa hana af honum síðar ásamt fleiri bókum. Síðar. Hins vegar á ég bók eftir Val Geislaskáld og kann honum bestu þakkir fyrir. Bókin er enn pökkuð í plast, ég vil ekki opna og lesa nema vera í næði, næði er ekki hluti af lífi mínu þessa dagana.

Á eftir vori kemur sumar. Það er hvítagull.

Lifið í friði.