27.3.08

veðrið, landið, miðin og heilsan - það mætti halda að ég væri á elliheimilinu

Veðrið hér er rysjótt og leiðinlegt, kalt og rignir oft þó sólin glenni sig inn á milli. Ég er farin að þrá sumar og sól af miklum alvöruþunga, ég er næstum viss um að þegar hann hlýnar, munu áhyggjur mínur hverfa. Ekki að þær séu dögg en þær hafa einhverja sameiginlega þætti með dögg, þær hverfa fyrir sólu.

Í dag, þegar ég var búin að vakna upp af doða í lestri um hljóðkerfisfræði við að allt í einu var farið að tala um ferðamálafræði sem reyndist svo þegar sellurnar vöknuðu og lásu rétt úr stafarununni vera ferils... jæja, ekki ferðamálafræði, fór ég í bað með bleikri froðu.
Ég á góðar vinkonur sem hafa þann ágæta sið að gefa mér gott í baðið í afmælisgjöf. Ég held ég geti sagt með sanni að slíkar vinkonur eru guðsgjöf.

Annars kom svo í ljós hjá lækninum að dóttir mín er með hálsríg eftir fallið um daginn. Ekki hafði móðurinni dottið sá möguleiki í hug en sífellt kvart um verki í eyrum og þar niður (eftir hálsinum sé ég nú, ég var alltaf að hugsa um holin, ekki vöðvana) rak hana með barnið til sérfróðrar manneskju. Svona er það nú stundum til einhvers að kíkja til læknis.

Lifið í friði.