27.3.08

Athugasemdirnar hér fengu mig til að svelgjast verulega á hafragrautnum.
On s'amuse dans la basse cour, hein?

Annars gekk stefnumótið vel í gær, við vorum sammála um að við hefðum hvorugar breyst, bara elst samtaka en báðar svipaðar týpur og áður. Stephanie var í sömu stuttu víðu mussunni sinni og þröngum síðari bol undir sem náði vel yfir víðar buxur sem voru hálfgirtar ofan í háæluð stígvél.
Við ræddum aðeins brottför hennar og hún sagði mér ýmislegt. Minningar um það þegar ég kom og frétti að hún væri farin kviknuðu í huga mér og hvernig þau sátu alveg gáttuð á þessu fólkið sem hafði komið sér fyrir á heimilinu, alveg hissa á að hún sagði ekki einu sinni bless um leið og þau lýstu því að hún hefði m.a.s. skrúfað niður hillur yfir sófanum þar sem tvö (eða fleiri) sváfu. Ég vissi náttúrulega hvers vegna þau sváfu slíkar aðfarir af sér, en þau virtust ekki tengja þetta neinu öðru en argasta dónaskap í henni. Fólk er... já...

Nú á ég heimboð í lítið hús í Svíþjóð. Þar vaxa plómur og ferskjur í garðinum. Þar er köttur og tveir ljóshærðir síðhærðir drengir. Og þar er hún Stephanie sem býr til jurtaseyði sem eru ýmissa meina bót. Mig langar. Ég hef reyndar lengi verið á leið til Svíþjóðar og á ansi marga til að heimsækja þar. Og vitanlega er græni kjóllinn hennar Liv einhvers staðar þarna, bíðandi eftir mér pressaður á herðatré.

En þangað til verður það lestur og ráf um völundarhús íslenskra orða á milli þess sem ég vel matseðla, panta miða og geng frá ýmsum lausum endum.

Lifið í friði.