17.3.08

í dag á morgun

Í dag væri ég til í að grúfa mig yfir niðurstöður greinanna tveggja í Lesbókinni um Mónu Lísu og Cörlu Bruni sem segja hvoruga vera til eða a.m.k. ósýnilegar.

Í dag væri ég til í að grúfa mig yfir setningu sem ég fann á netinu um niðurrif gettóanna í Mið-Evrópu og það látið líta út fyrir að vera hin rökrétta aðgerð, húmanísk og eðlileg þróun. Þar er aðeins hálf sagan sögð. Blaðakonan spyr sig ekki hvert íbúarnir eru sendir og þögnin um það leyfir manni kannski að trúa því í smá stund að í stað risablokkanna hafi verið byggðar litlar resídensur, sem hún kallar fjölbýlishús, mann- og lífvænlegri. Ó, að heimurinn væri svo fagur.

Í dag væri ég til í að taka fram hjólið mitt og hjóla niður í búðina sem selur lífvænar vörur og kaupa mér þurrkaða ávexti og ýmislegt fleira góðgæti.

Í dag grúfi ég mig yfir skólabækurnar, reyni að hlusta á beygs- og morðtímana í stolinni PC-tölvu og reyni að komast áfram í lesefninu sem ég skil ekki.
Eins gott að vera dugleg í dag, á morgun er geymslustofnun barnanna nefninlega lokuð, enn eitt verkfallið boðað hjá langþreyttri kennarastéttinni. Á morgun mun ég ekki heldur grúfa mig yfir greinar úr Lesbók eða af netinu. Og líklega hvorki hinn né hinn.

Lifið í friði.