verkstol
Yfir mig hellist einhvers konar angistartilfinning. Þreyta og vonleysi. Upptökur á beyg og morði eru óáreiðanlegar, heyri sumt ekki allt. Skil ekki neitt, þannig lagað séð. Eða skil ekki hvað það er sem ég á að skilja. Engin einkunn komin fyrir síðasta verkefni og engin einkunn komin fyrir miðsvetrarverkefnið sem ég vann uppi í fjalli. Líður eins og ég ætti kannski að segja mig úr kúrsinum til að komast hjá allsherjarniðurlægingu en samt er það svo innilega gegn minni sannfæringu að hlaupast undan verkefnum. Verkefni eru til þess að sigrast á þeim, ekki til að flýja undan. Ég tel slíka hegðun bera vott um almennan aumingjagang og hvern sigur á slíkri löngun sem nýjan stein í minn andlega sigurboga.Svo þyrfti ég að vinna töluvert en ég bara ætlaði að nýta daginn í dag í námið. Það var planið. Ekki það að mín innri sannfæring segi mér að ég verði að fara eftir plönum, en þetta er í raun eini dagurinn í þessari viku sem ég hef heilan og óskertan fyrir mig. Aðra daga eru börnin heima eða ég að vinna. Ég geri ansi oft plön sem ég raska og tel það bera vott um aðlögunarhæfni.
Kannski hefði ég ekki átt að fá mér tveggja mínútna grænt te, of örvandi á taugarnar? Þær eru þandar, vel þandar. Ég tel það bera vott um taugaþenslu [sic]. Þið verðið að fyrirgefa mér, mér líður í alvörunni ekki vel.
Best að fara og brugga fjögurra mínútna skammt til að róa mig niður. Er nokkuð hættulegt að leika sér með upp og niður skammta af grænu tei? Ég tel ekki að svo sé.
Te-i?
Lifið í friði.
<< Home