16.3.08

lygaralubbi deyr

Það er lítið að gerast á blogginu. Er þetta alltaf svona á sunnudögum?
Ég var að horfa á enn einn þáttinn um sönn sakamál. Í þetta sinn var fórnarlambið alsírskur opinber starfsmaður sem hvarf og auðvitað miðaðist rannsóknin í upphafi við það að um pólitískt mál væri að ræða. Fljótlega átta lögreglumenn og eiginkona sig þó á því að maðurinn lifði tvöföldu lífi og að hann hefði misst hjákonuna í skotárás brjálæðings nokkrum mánuðum fyrr. Því máli man ég mjög vel eftir, maður sem stóð upp á bæjarstjórnarfundi og plaffaði niður fólk og tókst svo að henda sér út af fjórðu hæð í gæsluvarðhaldi svo enginn veit hvað fyrir honum vakti. Eftir þessar uppgötvanir kemur svo í ljós að hann var búinn að "endurtvöfalda" líf sitt, þ.e. trúlofaður í þriðja sinn.
Þá fer löggimann að gruna að kallinn gæti nú hafa horfið fyrir annað en að vera að vinna í alsírskum málum í Frakklandi.

Og þegar líkið finnst í skotti bíls hans og farið er að rannsaka símanotkun hans og svo fjölskyldu konu nr. 2 sem hafði séð hann síðust þegar hann kom í heimsókn að kyssa litlu 4 ára stelpuna sína, var nokkuð ljóst að þau gætu ekki verið með alveg hreint mjöl í pokahorninu.

Það eina sem þær mæðgur sem réðust á hann og börðu til bana vissu, var að hann var að skíta út minningu dóttur og systur með því að koma með aðra konu inn á heimili þeirra og sofa í rúminu þeirra með henni. Þær vissu ekkert um fyrstu eiginkonuna og börnin fjögur, né að faðir hans væri enn á lífi (dauði hans var fyrri afsökun fyrir frestun á brúðkaupi).

En hann hafði reyndar saurgað minningu dóttur og systur með því að segja þeim að hún hefði ekki einu sinni verið hrein mey þegar hann kynntist henni og klykkt út með því að hóta þeim að hann væri að fara að taka dóttur sína af þeim og fara með hana til Alsír.

Móðirin trylltist og fór í slag við hann, dóttirin skerst í leikinn og grípur pönnu og slær hann aftur og aftur. Móðirin fór svo og náði í hníf og rak í gegnum hjarta hans, en þá var hann reyndar dauður eftir högg á hálsinn sem kæfði hann.
Þetta er a.m.k. atburðarásin sem fór fyrir rétt, ekki mun ég gleyma lögmanninum í bráð sem segir að hann viti nákvæmlega hver gerði hvað og hvernig og gæti hafa verið að gefa í skyn að opinbera útgáfan sé ekki sú rétta. Það voru tvær aðrar systur til og önnur þeirra og einn frændi voru stödd á heimilinu þegar morðið var framið.
Dóttirin fékk tólf ára dóm sem var styttur í níu í Hæstarétti, móðirin fékk tvö ár, stytt í 18 mánuði, afplánaði 11 mánuði og býr áfram í húsinu sem glæpurinn var framinn í.

Ekkert kom fram um hvað varð um dótturina, eitt aðalfórnarlambið í þessari sögu, missir móður sína í tilgangslausri skotárás brjálæðings og svo myrða móðursystir og amma pabbann. Hún gæti kannski orðið frægur rithöfundur þegar hún verður stór.

Já já, það er alltaf upplífgandi að horfa á svona sakamálaþætti. Og voðalega gott að hugsa til þess hvað maður lifir fábrotnu og eðlilegu lífi án lyga og svika. Eða...?

Lifið í friði.