28.3.08

Peking

Ég er alfarið á móti þeirri hugmynd að sniðganga Ólympíuleikana í Peking. Það er að segja, að íþróttafólkið verði ekki sent. Mér er alveg sama hvað verður svo um áhorfendafjölda á staðnum, en að feitur og frekur lýðurinn sitji og ætlist til þess að blessað íþróttafólkið sjái um að veita kínverskum stjórnvöldum rassskell finnst mér firra.
Ég hef aldrei stundað íþróttir sjálf í öðrum tilgangi en að halda sjálfri mér við. Ég hef aldrei keppt í neinu nema jú, dansaði einhvern tímann við Kool and the Gang en það er sem betur fer grafið og gleymt, var hvorki fest á filmu né talað um það í fjölmiðlum. Ég hef hins vegar umgengist íþróttafólk töluvert og veit því margt um blóðið, svitann og tárin. Alla sjálfboðavinnuna og ástríðuna sem þarf til að reka fólk áfram. Allt hið óeigingjarna starf sem unnið er neðan frá.
Mér er slétt sama um kapítalíska rammann, ég bið forláts, en ég á mjög auðvelt með að rífa hann frá hinum eiginlega atburði, því þegar ákveðin íþróttamanneskja fær að vita að hún komist, því þegar hún fær að vita hvort hún fær styrk til að komast eða hvort hún og fjölskyldan þurfi bara að blæða úr eigin vasa (sem fólk gerir vitanlega) og þegar hún svo stendur á vellinum með keppendum hvaðanæva sem hafa mismikið þurft fyrir því að hafa að vera þarna. Þetta eru hinir eiginlegu Ólympíuleikar og reyndar á þetta við alla stóra íþróttaviðburði. Auglýsingaskrum, skrautsýningar og kampavín í einkastúkum kemur því ekkert við þó það hafi verið skapað í kringum þetta af einhverjum bissnissgaurum.

Ef ykkur langar að veita kínverskum stjórnvöldum rassskell getið þið ákveðið með sjálfum ykkur að kaupa aldrei neitt sem er framleitt í Kína. Ef ykkur langar að veita þeim gott og gegnt aðhald, getið þið t.d. mætt fyrir utan kínverska sendiráðið sem mun vera á Víðimelnum og mótmælt óréttlætinu. Sístækkandi hópur fólks mætir þangað á hverjum laugardegi kl. 12. Það er flott. Hér er örlítil hugleiðing um hvað er flott við það.

Og húrra fyrir íþróttafólkinu okkar, þau eru frábær og eiga fyllilega skilið að fara á Ólympíuleikana, burtséð frá því hvar þeir eru haldnir.