31.3.08

bleikt

Mér finnst eins og ég ætti að skarta bleiku þegar ég fer að ná í börnin á eftir. Það eru ekki raddir í höfði mínu sem segja mér það, heldur er þetta meira svona einhver tilfinning. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að ég eigi að skella mér í snögga og lífvæna sturtu, láta rauðrunnate bruggast á meðan og klæða mig í sterka og glaðlega liti meðan það er drukkið áður en ég fer að sækja skarann. Ég get ekki útskýrt það, en mér finnst eins og það muni laga eitthvað.
Einu skærbleiku buxurnar mínar eru stuttar og úr hör. Það er enn dálítið kalt fyrir þær þó að sólin skíni reyndar af öllu sínu afli núna (stemmir, gerðist um leið og vélin fór í loftið með þá 20 Íslendinga sem ég lóðsaði um borg og sveitir um helgina í grenjandi rigningu og skítakulda).

Ég skil ekki bofs í verkefni miðvikudagsins. Alla vega ekki svona í fyrstu atrennu. Ég treysti því þó að ég muni átta mig betur á þessu í kvöld og á morgun en er það ekki tilætlunarsemi af kennara krefjast þess að við getum hugsað sjálfstætt?

Næst á óskalista: skærbleik lopapeysa.

Lifið í friði.