20.4.06

undarleg viðskipti

Fyrir nokkrum dögum kom kona með þunga bók í töskunni sinni til mín. Þessa bók las ég nú um helgina enda hvílíkt skítaveður að það var fínt að kúra sig undir sæng á eftirmiðdögum og lesa.
Inni í höfðinu á mér ómuðu stundum reiðiöskur, stundum var ég svo hissa að ég trúði varla orðunum, stundum þurfti ég hreinlega að leggja bókina frá mér og hefði kannski bloggað eitthvað til að fá útrás en í staðinn básúnaði ég yfir vesalings Frakkana yfirlýsingum um náttúruverndun, stóriðjubaks og tímaskekkju og þau vissu varla hvaðan á þau stóð veðrið.

Í morgun hjólaði ég af stað með þungu bókina í bakpoka. Hjólaði niður með skipaskurðinum sem liggur annars vegar niður til Parísar og hins vegar upp til Amsterdam (sú leið er sjaldnar notuð af mér). Á Quai de la Loire hitti ég, regnbogabarn í rauðum jakka, svartklæddu íðilfögru ljóshærðu nornina sem notar stundum eldrauðan varalit. Upp úr svarta pokanum hennar kom Love Star, upp úr mínum vínrauða kom Draumalandið. Andri Snær Magnason var því staddur þarna að einhverju undarlegu leyti, óforvarendis og án þess að vita af því var hann á terrössu við canal í París að morgni sumardagsins fyrsta. Hann fékk þó ekki myntute hjá arabakarlinum og ekki var lesið upphátt úr bókunum.

Ég veit það núna að ég ætla að gera eitthvað til að vinna að því að ekki bara bókin endi vel.

Einhverjar hugmyndir?

Ég held því miður að Íslandsferð í júlí sé ekki valmöguleiki vinnunnar vegna. Það er þó ekki alveg útilokað og mig langar ógurlega mikið að vera þarna við Kárahnjúka 21. júlí nk. Þar verða líklega sömu listamenn og á tónleikunum í janúar en ákveðið hefur verið að auglýsa engin nöfn svo fólk komi ekki bara til að dýrka stórstjörnur, það væru rangar forsendur.
Hægt að lesa um þetta á savingiceland.org sem ég þarf að bæta í tenglalistann. Hvert á maður helst að senda peninga? Þangað? Eða eitthvert annað?

Það þýðir ekki lengur að hugsa með sér að aðrir geri þetta fyrir mann.

Við þurfum öll að gera þetta saman.

Mikið er ég nú fegin að enginn vina minna talar um tegrun eða jaðarábata þegar sagt er frá djammferðum eða pælt í lífshamingju. Mikið er ég hissa á að hafa aldrei heyrt um star.is. Mikið er ég glöð að þessi bók var skrifuð.

Ég ætlaði ekki að játa það, en ég get aldrei haldið í mér: Ég grét meðan ég las síðustu tvær blaðsíðurnar.

Gleðilegt sumar hróin mín.
Gleðilegt og gott sumar, verið ánægð, verið bjartsýn, það er ég.
Og umfram allt: Lifið í friði.