14.4.06

sveitaferð

Ég ætla að leyfa spurningunni um hvað myndirnar 16 eigi sameiginlegt að hanga ósvaraðri yfir páskana. Sjálf verð ég út úr síma- og netsambandi í 4 daga.
Í fyrsta sinn munum við hafa páskadagsmorgun eins og frönsk börn eiga að hafa hann, eggin verða falin úti í garði og þau leita.
Vitanlega er búið að færa þennan sið upp á hærra plan og nú eiga foreldrarnir að búa til ægilega skemmtilega ratleiki utan um páskaeggjaleitina. Við ætlum hins vegar að skýla okkur bak við það hvað börnin eru ung og látum duga að fela eggin og ekkert allt of vel heldur.
Ég er sammála Kókó um að páskarnir eru eitt besta fríið, einhvern veginn svo þægileg tilhugsun að þessir frídagar eru þarna alltaf og koma engu dagatali við. Þó að páskafríið sé náttúrulega bara mánudagurinn hér fyrir vinnandi fólk eru börnin í 2 vikna skólafríi og mörgum tekst að lengja fríið sitt, þökk sé 35 stunda vinnuviku o.fl.

Ég get upplýst ykkur um það að ég hef eingöngu séð helminginn af myndunum úr spurningakeppninni, a.m.k. svo ég muni.
Ég óska ykkur gleðilegra páska, hvort sem þið gangið til altaris eður ei. Megi friður og hamingja fylgja samverustundum við fjölskylduna.

Mig langar í lambalæri með öllu à la mamma einmitt núna en mun láta mér duga að veðurguðirnir gefi okkur þurra helgi og hlýja.

Lifið í friði.