15.2.06

hinsegin aperó

Litli frændi er að auglýsa hinsegin kvikmyndahátíð.
Þetta hljómar allt saman ljómandi vel. Ég væri til dæmis mikið til í að sjá bangsann spænska enda er ég mjög hrifin af bangsahommum eftir að þeir tóku mig í fóstur á Gay Pride eða La Marche de la Fierté eins og málfarsfasistarnir frönsku vilja hafa það (Íslendingarnir eru ekki þeir einu sem eru hræddir við enskuna, þeir eru bara einir um að telja sig hafa fullt vald á henni).
Ég var á Gay Pride ólétt með vinkonu minni og litlu dóttur hennar. Við urðum dálítið þreyttar ég og litla dúllan og fengum að setjast hjá böngsunum sem gáfu okkur blöðrur og bangsa. Síðan þá hef ég alltaf verið veik fyrir þessari manngerð enda voru þeir með afbrigðum ljúfir og elskulegir þó þeir væru þarna leður- og lítið klæddir til að sýna vel bringuhár og frjálslegan vöxtinn.
Vinkonan hafði áhyggjur af brenglaðri mynd dótturinnar af karlmönnum eftir þetta en hún man lítið eftir þessum degi í dag, skilst mér. Eftir á að hyggja komumst við að þeirri niðurstöðu að við fengum mikla og jákvæða athygli þarna í göngunni því fólk dró eigin ályktanir of fljótt og stimplaði okkur sem lesbískt par með annað barnið á leiðinni. Við vorum mjög sáttar við þann stimpil og tölum stundum um þennan dag sem daginn sem við náðum saman. Og fáum nostalgískan sæluhroll.

Svo líst mér líka vel á indversku útgáfuna af Cyrano de Bergerac. Spennandi.

Og ferlega finnst mér það flott hjá hátíðarnefnd að undirbjóða ameríska ruslið. Svona á að gera þetta! Þeir vilja samkeppni, verði þeim að því.

Lifið í friði.