16.7.05

Paul og Maya

Það er sérlega skemmtilegt að flakka milli þorpa í Frakklandi og finna alls konar antíksölur (antiquités/brocante) eða umboðssölur (dépôt vente).
Maður dettur inn hjá hágæða húsgagnasmiðum sem kaupa húsgögn úr sveitabæjunum og vilja ekkert yngra en 1870 eins og maðurinn sem seldi Laurence eldhúsborðið sitt sem er 260 cm á lengd og 94 cm á breidd.
Hann sagðist dauðfeginn að losna við þetta stóra borð enda sérhæfir hann sig í litlum skápum sem voru upprunalega eiginlega ferðatöskur vinnumannanna sem flökkuðu milli bæja í vinnu. Þeir höfðu þá allt sitt hafurtask í skápnum og skelltu honum upp á kerru og ferðuðust þannig þangað sem eitthvað var að gera. Mjög skemmtilegir skápar og er ég ákveðin í að eignast slíkan grip einn góðan veðurdag.
Svo getur maður komið í lítið ofurfallegt þorp og séð þar kaffihús með plastborðum og scheppes sóltjöldum og málað skilti sem auglýsir dépôt vente. Manni finnst skiltið kannski dálítið Emblulegt og fær fiðring í magann. Hér hlýtur að vera eitthvað spennandi.
Fyrst kemur maður inn á kaffihúsið. Þar trónir ung akfeit stúlka við kassann við enda barsins. Við sjálfan barinn hangir lufsulegur ungur maður sem lítur út fyrir að þiggja atvinnuleysisbætur (ég hef enga fordóma, þetta er bara svona ákveðin tegund af mönnum, er það ekki?) með bjór í glasi fyrir framan sig. Hann horfir sljóu augnaráði á okkur.
Skilti vísa á umboðssöluna út í bakgarð. Dúkarnir á plastborðunum í innri salnum eru dökkblá indversk næfurþunn efni með gullbróderingum og pallíettum sem stinga í stúf við undarlegar sjávarskreytingar á veggjum, akkeri, netbútar, baujur o.fl. Við erum mörg hundruð kílómetra frá sjó en það er ekkert að því að láta sig dreyma.
Frá bakgarðinum þarf slösuð ég að skakklappast niður undarlega illa steyptar tröppur. Við enda þeirra blasir hundur á stærð við vænan kálf. Hann teygir á keðju sem er samsett úr ýmsum vírbútum og einhverju fleiru óskilgreinanlegu og geltir hátt og grimmilega. Það er ekki laust við að þrátt fyrir hitann renni manni kalt vatn milli skinns og hörunds.
Við komum inn í meðalstóra skemmu sem er svo troðfull af dóti að varla er hægt að stíga niður fæti. Þarna er eldhúsinnrétting úr hjólhýsi, sófi sem hefði sómt sér á Southfork, lampaskermar, beyglaðir pottar, samansafn af glösum, skálum, öskubökkum og öllu þessu smádóti sem fyllir alltaf svona umboðssölur. Mjög mikið af dótinu kemur greinilega úr barnaherbergjum, oft líklega jóla- og páskaskraut sem börnin hafa gert í skólanum. Þarna fundum við þrjár fínar tréhillur sem við vildum fá að vita hvað kostuðu. Smærri útgáfa af akfeitu unglingstúlkunni hafði fylgt á eftir okkur niður. Við spurðum hana hvað þetta kostaði og hún sagðist verða að ná í mömmu sína. Eftir drjúga stund birtist stærsta útgáfan af kvengerð heimilisins, með svart mikið hár í risastórum appelsínugulum indjánakufli. Við náðum hilluverðinu niður um 4 evrur.
Vinir okkar voru að skoða eitthvað lítið sófaborð og skyndilega öskrar litli og tágranni kallinn sem við höfðum séð glitta í á bak við skemmuna að með sófanum fylgi tveir stórir hægindastólar. Hann var greinilega sannfærður um að þetta sófasett væri gullið í draslkistunni og að við hlytum að hafa mikinn áhuga á því.
Við klöngruðumst upp stigann og inn í annað bakherbergi sem frúin hafði sagt okkur frá. Þar var forláta verksmiðjuvigt sem maður getur bara ekki keypt þegar maður býr í íbúð í blokk og frábærir stólar sem þau vildu ekki selja. Upp um alla veggi héngu málverk af undarlega löguðum berum konum, bátum á reki á sjó og öðrum landslagssenum sem hljóta að hafa verið eftir einhvern vin þeirra, ef kerlingin er ekki að mála sjálf (eins og sumir sem ég minntist á í byrjun þó að gæðin séu ekki samlíkjanleg).
Á gólfi upp við hurð sýndist okkur standa kjötpoki sem er ekki gott í þessum hita og þykkt lag af ryki lá yfir öllu svo við ákváðum að vera ekkert að fá okkur svaldrykk hjá þeim.
Þegar við ókum í burtu sáum við skiltið yfir hurðinni: CHEZ PAUL ET MAYA.

Lifið í friði.