afstæði
Mér finnst merkilegasta frétt vikunnar vera dýri veitingastaðurinn sem á að opna á Íslandi. Sprengjur í London og ólympíuleikar á sama stað falla gersamlega í skuggann af þessu.Flestir þeir sem ég þekki og eru fjáðir, eru líka frekar naumir. Ekki beint nískir, en það er samt ástæða fyrir því að þeir eru loðnari um lófana en hinir (og miklu fleiri) sem ég þekki og eiga í vanræðum með að ná endum saman. Þeir eru oft sniðugir að láta bjóða sér, og fara "vel" með aurinn sinn. Ég efast stórlega um að mikið af ríku fólki eigi eftir að koma á þennan dýra veitingastað í Reykjavík. Ætli það verði ekki mest fólk sem á í raun ekki fyrir því en langar svo að fara því það er svo smart að hafa komið? Eða hvað? Kannski kemur aldrei neinn. Og hvað í fjandanum á maturinn eiginlega að kosta? Er ekki verið að selja steikur á fimmþúsundkall á hinum "ódýru" stöðunum fyrir plebbana sem eiga hvorki frægð né troðin seðlaveski? Ég hlakka til að fylgjast með þessu máli. Þetta bjargar vikunni frá því að vera bæði veðurfarslega og fréttalega ómöguleg.
Frekar lamað veður hérna, ekki þó rigning í dag og farið að hlýna aðeins, en búið að vera hráslagalega íslenskt veður undanfarna daga. Maður varð að fara í lokaða skó á föstudaginn eftir að koma heim með bláar tær á fimmtudeginum.
Annars er ég að fara upp í sveit á morgun í fjóra daga með verðandi samstarfskonu minni. Við ætlum að gera tilraunir með málningu og ýmislegt spennandi. Drattaðist niður í geymslu í morgun og troðfyllti bílinn af dóti. Var hálfþunn eftir víndrykkju með kallinum í gærkvöldi og þetta var mikið þrekvirki. Ég hata geymslur. Allar geymslur fyllast af drasli, sama hvað maður er ákveðinn í að láta það ekki gerast. En vonandi get ég komið þessu dóti í verð eftir að ég verð búin að fegra það. Og vonandi getum við látið drauminn um að gera þetta að atvinnu okkar rætast. En það kemur í ljós í haust.
Mugison er með tónleika hér aftur 21. júlí. Ég ætla að fara og tókst m.a.s. með smá andlegu ofbeldi (þú hefur aldrei áhuga á neinu frá mínu landi, ertu búinn að lesa Laxness? Ertu búinn að lesa Eddu? Þér er skítsama um uppruna minn...) að fá manninn minn til að samþykkja að koma með mér.
Sé ykkur um næstu helgi. Lifið heil og verið dugleg að skrifa. Bloggið er frekar dauflegt þessa dagana finnst mér. Ekki það að sjálf er ég gersamlega andlaus og kreisti þetta röfl úr mér núna með miklum erfiðismunum og er alveg búin núna. Farin að leggja mig.
Lifið í friði.
<< Home