5.7.05

eirðarleysi

Nú er Sólrún í flugvélinni með fólki sem hún þekkir lítið sem ekkert og ég enn minna. Skrýtin tilfinning. Hún var hress og hugrökk í morgun skv. ömmunni og fór vel á með henni og samferðafólkinu þegar þau hittust í kaffi í gær.
Mér líður svo skringilega, það bærast alls konar tilfinningar í brjósti mér eins og þær að enginn annar en ég geti sinnt þörfum barna minna. Afar óheilbrigður hugsunarháttur kviknar inni í móðurinni þegar fylgjan fer út. Einhvers konar frumskógareðli, maður veit að maður getur breyst í villidýr ef einhver gerir barninu eitthvað og maður ákveður að barnið muni aldrei neitt henda.
Nemó-myndin fjallar einmitt um þetta: "Ef aldrei neitt má koma fyrir hann... þá kemur aldrei neitt fyrir hann" segir Dóra og vorkennir Nemó mikið.
Yfirleitt tekst foreldrum að hrista af sér þessar hugsanir en þær eru þarna einhvers staðar niðurbældar og brjótast upp á yfirborðið á ólíklegustu tímum. Það þýðir ekkert fyrir mig að hugga mig við að allt sé í lagi, mér líður hörmulega og mun ekki líða betur fyrr en hún er komin í fangið á mér. Ég veit að fólkið mun segja mér að allt hafi gengið vel. Ég veit að allt gengur vel. En ég er óhemja og mér er sama hvort allt gengur vel eða ekki, barnið mitt á ekkert að vera þarna með ókunnugu fólki.

Ég er búin að hengja upp úr tveimur vélum í morgun og sú þriðja er á fullu að vinda. Mér tókst þá alla vega að virkja eirðarleysið í eitthvað gagnlegt.

Milli þvottaupphenginga fletti ég upp hlut sem hefur verið að vefjast fyrir mér í smá tíma. Hryssan skrifaði um daginn að maður ætti að segja: Hafa gaman AF e-u. Mér hefur alltaf fundist það eiga að vera þannig, en hef í einhvern tíma skrifað að hafa gaman AÐ eftir að ákveðin kona leiðrétti það hjá mér í tölvupósti. Hm. Svona á maður ekki alltaf að trúa öllu án þess að athuga það. Ég á hina frábæru bók ORÐASTAÐUR og þar stendur að maður HAFI GAMAN AF bókum, hestum... en samt FINNST eða ÞYKIR manni GAMAN AÐ handavinnu. Þarna hef ég það. Þess vegna er bloggið mitt áreiðanlega fullt af þessari villu. Á ég að lesa það allt aftur? Held ég nenni því ekki. En rosalega þykir mér leiðinlegt að hafa vaðið í villu í þennan tíma.

Svo fletti ég öðru orði upp í Orðabók Menningarsjóðs sem ég fékk í fermingargjöf: Uppreist þýðir uppreisn. Skrýtið. Orðið uppreistarmaður hnaut ég um í formála Kristjáns Karlssonar að (eða af?) kvæða- og greinasafni Steins Steinarrs. Ég er á milli bóka núna og ákvað að lesa Stein enn og aftur.

Lifið í friði og lifi uppreistin.