Bowie
Ég er fædd 1969, þegar blómaskeið hippans og glysrokksins er að líða undir lok og diskóið er á leið inn. Ég var eiginlega aðeins of ung fyrir pönkið, þegar ég er byrjuð að breytast úr saklausu barni í "reiðan" ungling ruddist yfir okkur bylgja af Duran Duran, Wham, Boy George og fleiri ámóta spennandi hljómsveita. Þegar ég er tólf, þrettán ára byrja ég að hafa mikinn áhuga á tónlist. Ég náði að hlusta á nokkrar pönksveitir en ég var samt alltaf mjög hrædd við pönkstelpurnar niðri á Hlemmi sem gengu í nærbuxum utan yfir níðþröngar gallabuxurnar. Ég var í stretsbuxum úr Karnabæ, sem ég þurfti að leggjast í gólfið til að komast í, en ég hefði aldrei þorað að vera í nærbuxum utanyfir. Ég átti fótlaga skó, sem voru álitnir pönkaraklossar í mínum hallærislega Seljaskóla og ég gekk helst í blá-hvít röndóttum mussum úr Vinnufatabúðinni. Ég hlustaði á Sjálfsfróun, Fræbblana, Egó og dýrkaði Tappa Tíkarrass, en ég hafði aldrei áhuga á að klæða mig of áberandi og ég hafði mig ekki mikið eftir því að kynnast hugmyndafræði pönkaranna. Ég var afskaplega þæg og prúð.Eina leiðin til að uppgötva nýja tónlist fyrir tólf, þrettán ára krakka sem gat ekki farið niður í bæ og KEYPT plötur, var að taka upp hinn "allt of stutta", "elsku fjörtíu mínútna" LÖG UNGA FÓLKSINS. Ég gerði tók mig mjög alvarlega við þessar upptökur og eyðilagði a.m.k. tvö segulbandstæki fyrir pabba, sem sýndi mér engan skilning, þoldi ekki hvernig ég níddist á tökkunum. Trikkið var að ná sem mestu af laginu án þess að rödd þáttastjórnandans kæmi inn á bandið. Ég varð fljótlega sjálfskipaður DJ í bekknum, sá um tónlistina á bekkjarkvöldum og í leikfimis- og sundrútunni. Á þessum árum ferðaðist pabbi mikið til útlanda og keypti þá oft plötur handa mér. Aðallega þýskar og sænskar safnplötur með vinsælu lögunum. Þetta hjálpaði mér mikið í skífuþeytarabransanum.
Á upptökubrölti mínu kom stundum röddin með, það var ómögulegt að hafa þetta fullkomið. David Bowie gerði lagið Cat People vinsælt á þessum árum, 1982 að mig minnir og fannst mér það afar flott lag. En í einum þætti LAGA UNGA FÓLKSINS hafði einhver þroskaðri unglingur en ég vit á að biðja um lagið Life On Mars. Í endann á laginu kom stjórnandinn og sagði David Bowie og það varð eftir inni á bandinu.
Mér varð um og ó þegar ég uppgötvaði að þetta stórfína lag væri sungið af sama manni og Cat People. Ég bað pabba um að kaupa Bowie plötu handa mér í útlöndum. Hann keypti handa mér eina og eina plötu. Ég uppgötvaði þarna Pin Up's, Low, Hunky Dory og sitthvað fleira. Smátt og smátt uppgötva ég líka að ég get fundið ýmislegt út um þennan frábæra tónlistarmann. Það voru til heilu bækurnar um hann Hjá Hirti og svo gaf hann út Let's Dance og fór að koma í BRAVO, ásamt Boy George, Taylor drengjunum og Le Bon.
Ég var kannski alein í skólanum að hlusta á Bowie, en gat þó sagt þeim ýmislegt um erfiða æsku, slys á auga og önnur ómerkileg smáatriði þegar stelpurnar voru að pípa um bláar nærbuxur og annað stórmerkilegt úr lífi Simon.
Þegar Rás 2 hóf útsendingar breyttist heimurinn svo mikið að það er ekki hægt að skrifa stuttlega um það í einhverju bloggi. Ég er reyndar viss um að flestir unglingar í dag geta ekki svo mikið sem ímyndað sér helminginn af tilfinningunum sem bærðust í líkömum okkar, hversu erfitt það var að slökkva á viðtækinu í miðju vinsælu popplagi til að fara í skólann, hversu stórfengleg undur það voru að koma heim aftur og tónlistin enn á fullu í útvarpinu. Smátt og smátt lærði maður að lifa með því að þetta væri komið til að vera. Að maður þurfti ekki að hlusta á allt, þetta voru m.a.s. mest endurtekningar. Undarlegast var að finna að stundum fékk maður nóg og slökkti á tækinu þó maður væri ekki að fara neitt!
Í dag óskar maður þess stundum að kommúnistarnir hefðu náð völdum og að allur vestrænn heimur þyrfti að vera í felum með poppið, þá væri kannski verið að gera eitthvað af viti. Í það minnsta væri heimurinn líklega betri ef útvarpsrekstur væri ekki frjáls. Drullan og bullið sem vellur á FM-bylgjunum væri flest best geymt í stórri rotþró.
Ég á ennþá einhvers staðar spóluna með fyrstu ROKKRÁSAR-þáttunum. Skúli og Snorri á Rokkrás voru nefninlega Bowie aðdáendur og fyrstu tveir þættirnir fjölluðu um hann. Þar heyrði ég af samvinnu hans og Lennon og margt fleira spennandi. Ég kann líklega enn utanað ákveðna kafla úr þessum þáttum. Þetta voru góðir tímar.
Mamma var mjög hissa á þessari Bowie dellu í mér og sagði mér að hann gæti verið pabbi minn. Ég notaði það óspart að mamma væri í vafa um faðerni mitt.
Ég tilkynnti fljótlega (hey, ég var nú eftir allt mjög ungur unglingur þarna) að ef ég kæmist einn góðan veðurdag á tónleika með Bowie myndi ég fyrirfara mér því þá væri ég búin að upplifa allt. Ég hef séð hann mörgum sinnum á sviði. Stundum góðan, stundum allt í lagi, en ég ætla ekki að fyrirfara mér, var líklega orðin of gömul þegar ég sá hann loksins fyrst, þá tvítug. En á þeim tónleikum skemmti ég mér svo vel að ég grét mig í svefn um nóttina.
Ég hlusta ennþá mikið á Bowie, fæ gleðihroll þegar hann syngur um Lady Stardust, þegar hann rokkar með Jean Genie og ég fer í dáleiðsluástand undir Low. Changes og Space Oddity virka alltaf á mig. Bowie er góður félagi þó að ég hafi ekki nennt mikið að fylgjast með honum í dag. Ég fékk þrjú eintök af hrikalega lélegu plötunni hans sem er stolið úr mér hvað hét og eftir Tin Machine gafst ég eiginlega upp. Hlustaði ekki einu sinni almennilega á Outsider þó ég eigi nú diskinn.
Það var LÖGUM UNGA FÓLKSINS og þessum dónaskap þáttastjórnanda að tala yfir lögin að þakka að ég uppgötvaði Bowie. Í dag hlusta krakkarnir á síbylgjuna valda af markaðsfræðingum til að selja þeim meira kók. Í LÖGUM UNGA FÓLKSINS hlustaði maður á bréf frá fólki sem boðaði frið eða dauða og hlustaði á lög sem þetta fólk valdi með. Auðvitað valdi þáttastjórnandinn bréfin, en ég er sannfærð um að hann hafði algert frelsi og mátti spila það sem hann vildi. Eins og reyndar Rás 2 virðist leyfa stjórnendum sínum að gera í dag, a.m.k. að einhverju leyti. Ég man til dæmis mjög vel eftir þættinum sem kom eftir að NICOLE sigraði Eurovision með Ein Bichen Frieden. Langur lestur af friðarbréfum, örugglega tveimur lögum færra í þættinum en vanalega, en þetta var bara eitthvað svo flott að maður fyrirgaf það. Þá var Ísland ekki að keppa svo maður undi sigri annarra þjóða mun betur.
En nú verð ég að hætta þessari nostalgíu og koma mér í sturtu. Skógarferð í dag í hitanum.
Lifið í friði.
<< Home