VARÚÐ: ofurpólitískar hugleiðingar á sunnudegi
Ég minni aftur á tónleikana í kvöld og auðvitað á útkomu bókarinnar UM ANARKISMA sem tónleikarnir eru að kynna. Það er mjög hollt og gott að lesa um anarkisma. Og það er mjög gott að lesa um hluti á sínu eigin tungumáli, það skýrir oft margt sem áður var óljóst. Ég er viss um að vinstrisinnaða fólkið sem ég geri ráð fyrir að sé meirihluti gesta þessarar síðu verður hissa að sjá hvað margt í anarkismanum höfðar til þeirra. Anarkisminn er kannski nostalgísk hugmynd, en eru ekki öll vinstri hugmyndakerfin hálfgerð nostalgía í þessum ofurkapítalíska heimi sem við lifum í?Ég varð svo glöð í Versölum um daginn. Var þar með (h)eldri konur sem urðu svo hissa þegar ég, "svona ung" þekkti orðið SIGÐ. Það kom til umræðu því að verkamennirnir í Versalagörðunum nota sigð með löngu skafti til að snyrta trén. Ég sagði þeim að auðvitað þekktu allir kommúnistar sigðina og þá sló sú eldri sér á lær af gleði og sagðist líka vera mikill kommúnisti. Þetta var falleg stund sem við konurnar áttum þarna í litla golfbílnum í ofurvelsnyrtum görðum eins mesta valdaskúrks sögunnar.
Það er erfitt að játa á sig kommúnismann í dag. Erfitt að útskýra fyrir fólki sem lokar eyrunum og dregur upp Stalín og Rússland og skýlir sig á bak við það og neitar að hlusta á að mögulega gæti kommúnisminn verið góð lausn fyrir t.d. lítið en gjöfult land eins og Ísland.
Við náðum saman í að ímynda okkur fagurt samfélag fólks sem hefði tekist að losa sig við valdagræðgi og deildi með sér auðævunum og að allir lifðu í vellystingum, andlegum, félagslegum og jarðlegum. Falleg stund. Kveikti vonarljós í hjarta mínu.
Kommúnismi, anarkismi, sósíalismi, lausnin er þarna einhvers staðar. Það sem þarf að gerast er að fólk fái nóg af því að vera þrælar peningakerfisins, fái nóg að því að fylla húsin sín af drasli, fái nóg af því að vera með samviskubit því það veit að á hverju ári eykst tala þeirra sem leita til hjálparstofnana um leið og fleiri og fleiri komast inn á einhverja undarlega lista yfir ákveðið ríka einstaklinga. Miðstéttin er með nagandi samviskubit yfir húsinu sem þeir eiga lítið sem ekkert í, bílnum sem Glitnir á, sófasettinu sem á eftir að borga síðustu greiðsluna af, græjunum sem það veit að verður ekki hægt að gera við þegar þær bila því það hentar framleiðendum mun betur að pína fíklana til að kaupa nýtt... klisjur og aftur klisjur... ég veit það en stundum verð ég bara að koma þessu út úr höfðinu á mér.
Ég veit að einn daginn verður hvorki helvíti né paradís. Hvorki austur né vestur. Hvorki ríkir né fátækir. Ég veit að einn daginn mun saga aldanna verða skoðuð af fólki sem þekkir ekkert annað en jafnrétti og samlyndi og mun furða sig á þessu undarlega kerfi sem forfeður þeirra lifðu við og sættu sig við. Ég veit. Veist þú?
Lifið í friði.
<< Home