20.6.05

mikki vefur refur?

Ég ætlaði að hlýða mafíudrottningunni ógurlegu og skrá mig hjá Mikka vef. Þá kemur í ljós að ég er komin þar inn sem Kristín Jónsdóttir. Ég man einmitt eftir því að þegar ég var að setja parisardaman.com inn og var að fylgjast með hvernig hún "gúgglaðist", kom einhvern tímann þessi undarlegi mikki vefur upp. Ég reyndi eitthvað að eltast við hann en skildi ekkert í þessu og gafst upp. Ég veit ekki hver skráði mig, en þannig er það nú.
Þetta stemmir við annan skrýtinn atburð sem ég hef lent í, ungur maður gekk að mér á bar í Reykjavík og tilkynnti mér að ég væri fræg, þar sem ég bloggaði. Að hann þekkti mig og að mjög margir þekktu mig. Mér fannst þetta frekar óþægilegt, sérstaklega þar sem mér fannst maðurinn hálf agressífur í fasi. En ég var reyndar búin að fá mér aðeins í tána og lætin voru mjög mikil inni á þessum stað svo ég ákvað að vera ekki með ofsóknarbrjálæðisímyndanir. Hm.
En nú getið þið öll sett mig á vinsældarlistann ykkar hjá mikka. Ekki ætla ég að vera að gera mál úr því að vera á honum án þess að hafa beðið um það, þar sem Hildigunnur staðhæfir að þetta séu eingöngu plúsar, engir mínusar. En ég verð samt að játa að mér finnst þetta skrýtið og ég er afskaplega lítið fyrir að vera á listum, er með ofsóknarbrjálæðisfóbíu gagnvart því. Fæ mér aldrei viðskiptakort í búðum eða annað slíkt því ég vil forðast að vera númer.

Annars er aðallega það að frétta að hér er 30 stiga hiti eða meira og sól. Frekar ólíft og loftlaust en ég er þó alsæl. Sólrún er það líka, en Kári er frekar svona pirraður og þungur á brún enda er hann 100% víkingur og verður líklega að moka tröppurnar fyrir afa og ömmu á stuttermabolnum jólin 2015.

Jæja gæskurnar mínar. Ég ætla upp í rúm með Donnu Tartt á meðan börnin sofa sveitt og þreytt. Ekki séns að ég fari að taka til eða annað slíkt í svona hita.

Lifið í friði.