6.6.05

Ég fékk senda grein úr ELLE um Ísland frá tengdamömmu. Ég fékk svona kvíðasting í magann áður en ég las hana. Oh, ég vona að þær minnist ekki á Kárahnjúka og framkvæmdirnar. Greinin var mjög jákvæð og minnist ekki á það að Íslendingar eru að gera eitthvað sem mætti bera saman við að David Beckham skæri af sér hægri fót því hann fengi svo déskoti gott verð fyrir hann. En greinin er svo jákvæð að þær tala um lágt verð á ferðum til landsins. "Aðeins rúmar tvö þúsund evrur fyrir tveggja vikna túr um landið". En Elle finnst líka 140 evrur fyrir hlírabol vera lágt verð.
Það er fín grein um Kárahnjúkavandann á Múrnum frá 3. júní.

Í dag komu tvær örvæntingafullar húsmæður í kaffi til mín. Önnur þeirra getur bráðum lánað okkur hinum fyrstu seríuna um vinkonur okkar í Ameríku. Ég hef reyndar ekki hugmynd um hvað þessir þættir fjalla. Langar aðallega að sjá þá út af nafninu. Vil ekki fá að vita neitt um þá, takk samt.

Annars er bara nóg að gera við að svara tölvupósti frá verðandi túristum. Ég vona að sumarið á Íslandi verði tóm rigning og kuldi svo þið komið öll að hlýja ykkur hjá mér hér í París sólar og léttvína.

Hef ekki neitt að segja og þá er víst best að þegja.

Lifið í friði.