Eggaldin
Um daginn fékk ég leiðbeiningar hjá Hildigunni Corleone um meðhöndlun eggaldina fyrir eldun. Eins og mín er von og vísa, prentaði ég leiðbeiningarnar ekki út um leið. Í gær ákvað ég svo að elda eggaldin fyrir mig og manninn minn því dagurinn var eitthvað svo ömurlegur, alltaf að hella niður (sem gerði það reyndar að verkum að ég skúraði eldhúsgólfið) og gat ekki sofið (sem gerði það að verkum að ég hellti niður og skúraði eldhúsgólfið) og svona. Ég leitaði um alla síðu Hildigunnar, las ýmsar færslur frá maí sem höfðu farið framhjá mér (!) skil nú ekkert í því en ég fann ekki leiðbeiningarnar sem eru faldar í athugasemd við einhverri færslu sem kom mat ekkert við, ef ég man rétt. Ótrúlegt hvað konan fær mikið af athugasemdum. Maður verður nett abbó.En ég ákvað að treysta á gráa efnið og gera þetta eftir minni. Mamma og pabbi sögðu mér að ég yrði alltaf að lesa þrisvar til að muna. Það er líklega rétt. Ég las nefninlega leiðbeiningarnar um daginn tvisvar, þar af einu sinni upphátt fyrir vinkonu mína, en eitthvað smáatriði fór forgörðum í meðförum mínum í gær. Eggaldinin, steikt í hvítlauk og soðin í tómatsósu (EKKI ketchup!) reyndust rammsölt og óæt.
Það skipti reyndar ekki máli því ég eldaði þetta snemma um daginn og skellti loki sem passaði ekki á pönnuna yfir og þegar kvöldmatur hófst náði ég lokinu ekki af pönnunni. Það hafði myndast lofttóm undir lokinu og það var sem límt með jötungripi á blessaða pönnuna. Þess vegna keypti maðurinn minn franskar kartöflur með kjúklingnum.
Allan málsverðin gjóaði ég illu augnatilliti að pönnunni og lokinu. Þau virtust hæstánægð með sig, geymandi það sem ég taldi þá dýrindis kræsingar án þess að ég gæti náð í þær. Sem ég útskýrði mæðulega fyrir manni mínum að væri einfaldlega rökrétt framhald á erfiðum degi. Við komumst að þeirri niðurstöðu að hamarinn væri það eina sem gæti dugað til að bjarga a.m.k. pönnunni. Þangað til að ég fann allt í einu að kviknaði á peru einni einhvers staðar djúpt grafinni í gráa efninu. Baldur, Elías og allir hinir eðlisfræðikennarar fyrri ára hefðu nú aldeilis orðið ánægðir með mig. Skellti gasinu á undir pönnuna og viti menn. Lokið spratt sjálft upp eftir u.þ.b. eina mínútu. Við vorum búin að fá okkur osta og ávexti og ísinn orðinn mjúkur þannig að ekki var mikill áhugi fyrir eggaldinrétti þarna. Maðurinn minn ákvað þó að smakka og eins og sagði í upphafi, reyndist þetta óætt og endaði í ruslinu.
En ég á bæði pönnu og lok sem passar á lítinn pott.
Og ég er eðlisfræðingur í eðli mínu.
Og þó ég hafi skúrað í gær er ég ekki verri manneskja í dag.
Lifið í friði.
<< Home